Íslandsmeistarar Vals fara vel af stað í titilvörn sinni því liðið vann 2:0-sigur á ÍA á heimavelli í upphafsleik Pepsi Max-deildarinnar í fótbolta í kvöld.
Fyrri hálfleikurinn var með rólegasta móti og hvorugt liðið skapaði sér góð færi. Sigurður Egill Lárusson hjá átti ágætt skot framhjá snemma í fyrri hálfleik en það var eina færi Vals í hálfleiknum.
Skagamenn voru sterkari eftir því sem leið á hálfleikinn og Viktor Jónsson fékk fínt skallafæri um miðjan hálfleikinn en hann skallaði rétt yfir. Skömmu síðar fékk Hákon Ingi Jónsson ágætt tækifæri í teignum en sænski bakvörðurinn Johannes Vall kastaði sér fyrir boltann og bjargaði. Lítið annað gerðist í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi því 0:0.
Valsmenn spiluðu mun betur í seinni hálfleik og eftir nokkrar fínar sóknir kom fyrsta markið á 55. mínútu. Kaj Leo i Bartalsstovu átti þá fallega sendingu inn fyrir á Patrick Pedersen sem skoraði af öryggi framhjá Árna Snæ Ólafssyni í marki ÍA.
Daninn Christian Köhler var nálægt því að skora í sínum fyrsta leik með Val eftir rúmlega klukkutíma leik en hann skaut í stöng með lúmsku skoti í teignum.
Skagamenn létu mótlætið fara í taugarnar á sér Alexander Davey fékk fjórða gula spjald gestanna á 62. mínútu. Örfáum mínútum síðar fór Ísak Snær Þorvaldsson í ljóta tæklingu á Hauk Pál Sigurðsson og fékk réttilega sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Valsmenn nýttu sér liðsmuninn og Kristinn Freyr Sigurðsson bætti við öðru marki fyrir meistarana á 72. mínútu eftir góðan undirbúning hjá Kaj Leo og Pedersen. Kaj Leo átti þá sendingu fyrir markið á Pedersen sem kassaði boltann snyrtilega á Kristin sem skoraði af stuttu færi.
Eftir annað markið gerðist fátt markvert enda sigurinn í höfn hjá Val og tíu leikmenn ÍA voru ekki líklegir til að minnka muninn.
Valsmenn voru miklu sterkari í seinni hálfleik eftir slakan fyrri hálfleik. Skagamenn stóðu vörnina vel fyrri 45 og gestirnir voru með frumkvæðið á miðjunni þar sem Ísak Snær Þorvaldsson stýrði ferðinni. Hálfleikurinn spilaðist nokkurn veginn eins og Skagamenn vildu þar sem Valur skapaði sér fá færi.
Frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks voru Valsmenn beittari. Sigurður Egill Lárusson kom sér í fín færi á vinstri kantinum og á hinum kantinum var Kaj Leo í Bartalsstovu hættulegur. Það var einmitt eftir glæsilega sendingu Færeyingsins sem fyrsta mark leiksins kom. Patrick Pedersen var búinn að láta lítið fyrir sér fara en Daninn er ótrúlegur markaksorari og hann þarf bara eitt færi.
Um leið og Ísak Snær fékk sitt annað gula spjald stuttu eftir mark hjá Val varð ljóst að róðurinn yrði þungur fyrir gestina. Valsmenn þurftu ekki að hafa mikið fyrir því að bæta við marki og aftur voru það Kaj Leo og Pedersen í aðalhlutverki til að búa til mark handa Kristni Frey Sigurðssyni sem lék einnig mjög vel. Eftir annað markið var ballið búið.
ÍA reyndi að bæta upp fyrir skort á gæðum með mikilli baráttu og það tókst að einhverju leyti. Skagamenn reyndust Valsmönnum óþægilegur andstæðingur en að lokum voru gæði meistaranna einfaldlega of mikil. Leikurinn var skyldusigur hjá Val, en flestir eru á því að liðin berjist á sitt hvorum enda töflunnar í sumar. Skagamenn gætu hinsvegar fengið stig gegn einhverjum liðum með spilamennsku líkt og í kvöld, en Valsmenn voru of stór biti.