Stórsigrar Fjölnis og Aftureldingar

Jóhann Árni Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir Fjölni.
Jóhann Árni Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir Fjölni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölnir og Afturelding, sem leika bæði í 1. deild, unnu stórsigra á mótherjum sínum úr 4. deild í annarri umferð Mjólkurbikar karla í knattspyrnu í kvöld.

Afturelding tók á móti SR, sem er nokkurs konar varalið Þróttar í Reykjavík, og vann 8:0 að Varmá eftir að staðan var orðin 6:0 í hálfleik. Kári Steinn Hlífarsson og Elmar Kári Enesson Cogic skoruðu tvö mörk hvor fyrir Mosfellinga.

Fjölnir vann KÁ, varalið Hauka, 7:1 í Grafarvogi þar sem Jóhann Árni Gunnarsson, Lúkas Logi Heimisson og Hilmir Rafn Mikaelsson gerðu tvö mörk hver og Orri Þórhallsson eitt. Egill Örn Atlason skoraði fyrir Hafnfirðinga.

ÍR, sem leikur í 2. deild, heimsótti 4. deildarlið Álftaness og vann 2:0. Aleksandar Kostic og Axel Kári Vignisson gerðu mörk ÍR-inga.

Kári Ársælsson, fyrirliði Íslandsmeistaraliðs Breiðabliks árið 2010, skoraði eitt marka Augnabliks sem vann Ægi 4:0 í viðureign 3. deildarliðanna í Fagralundi.

Þá unnu Úlfarnir, sem leika í 4. deild, góðan 3:0 útisigur á 3. deildarliði ÍH í Skessunni í Hafnarfirði.

Þór vann Magna í grannaslag á Akureyri, 3:0.

Í annarri umferð Mjólkurbikars kvenna vann Grindavík 2:0 sigur á Hamri og Fram tapaði 0:4 fyrir Gróttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert