„Mér finnst þetta mjög svekkjandi,“ Sagði Atli Sveinn Þórarinsson þjálfari Fylkis eftir 2:0 tap fyrir FH í Árbænum í kvöld þegar leikið var í fyrstu umferð efstu deildar karla í knattspyrnu, Pepsi-Max-deildinni.
„Við hefðum viljað spila mun betur og okkur fannst hart að fá þetta rauða spjald. Mér fannst bara tveir leikmenn stökkva upp í skallaeinvígi en annar er hærri og einhvers staðar verður hann að hafa hendurnar. Ég hefði viljað sjá þetta betur en Erlendur er góður dómari og hann verður að meta þetta.“
„Við hefðum viljað fá meira út úr þessu. Við sköpuðum okkur smá stöðu en ekki mikla hættu, hefði viljað skapa mun oftar eitthvað hættulegt því mér fannst heilt yfir leikurinn vera í jafnvægi.“
„Það var mikill kraftur í okkar mönnum og mikill baráttuvilji, þeir eiga hrós skilið fyrir það því það er mjög auðvelt að hengja haus einum færri, líka marki undir og meira að segja tveimur en leikmenn sýndu þá kraft og styrk.“
Fylkir var með tvo menn í leikbanni og nokkra í meiðslum. „Okkur vantaði menn og allt það en það voru ellefu leikmenn klárir í leikinn og við fáum góða menn inn fyrir næsta leik. Þetta er svo bara að byrja,“ bætti Atli Sveinn við.