Hafnfirðingar mættu yfirvegaðir í Árbæinn í kvöld í fyrstu umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi-Max deildinni, og létu kappsfulla Fylkismenn ekki komast upp með mikið, náðu síðan undirtökunum og unnu sannfærandi 2:0 en Fylkismenn þurftu að berjast einum færri í 55 mínútur.
Árbæingar virtust í góðum gír og grimmari, en hoknir af reynslu héldu Hafnfirðingar áfram. Á 25. mínútu fékk FH síðan víti, að því er virtist fyrir litlar sakir en þó líklega samkvæmt reglubókinni og Steven Lennon skoraði af miklu öryggi, 0:1.
Aðeins voru liðnar nokkrar mínútur þegar Fylkismaðurinn Unnar Steinn Ingvarsson fékk gult spjald fyrir vægt brot en á 35. mínútu braut hann aftur af sér, fékk sitt annað gula og því rautt. Fleiri svona samstuð voru í leiknum en Unnar er stór og sterkur svo þetta leit ekki vel út. Hans fyrsti leikur í efstu deild en Unnar kom til Fylkis frá Fram í vetur.
FH náði hægt og örugglega undirtökunum og sóknir þyngdust á meðan Fylkismenn börðust áfram, ekki ánægðir með að missa mann af velli.
Síðari hálfleikur rétt svo byrjaður þegar Þórir Jóhann Helgason smeygði boltanum inn fyrir vörn Fylkis á Matthías Vilhjálmsson, sem var einn, lagði boltann fyrir sig og skaut óverjandi í hægra hornið. Þrátt fyrir að vera einum manni fleiri náðu FH-ingar ekki að keyra Fylkismenn í kaf, en sjálfir náðu þeir engu biti í sóknina.