Fylkir: Hver fyllir skarð Valdimars?

Þórður Gunnar Hafþórsson, Arnór Borg Guðjohnsen og Nikulás Val Gunnarsson, …
Þórður Gunnar Hafþórsson, Arnór Borg Guðjohnsen og Nikulás Val Gunnarsson, þrír af ungu leikmönnunum í Fylkisliðinu, fagna marki í Lengjubikarnum í vetur. Ljósmynd/Árni Torfason

Fylkismenn hefja sitt 24. tímabil í efstu deild Íslandsmótsins og það fjórða í röð þegar þeir mæta FH í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla, Pepsi Max-deildarinnar, á Würth-vellinum í Árbæ kl. 19.15 í kvöld.

Besti árangur Fylkis í efstu deild er annað sætið en því náðu Árbæingar bæði árið 2000 og 2002. Þeir urðu jafnframt bikarmeistarar árin 2001 og 2002 og þessi þrjú tímabil eru því þau bestu í sögu félagsins.

Heimavöllur: Würth-völlurinn (Fylkisvöllur) – gervigras.
Þjálfarar: Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Ingi Stígsson.
Aðstoðarþjálfari: Tómas Ingi Tómasson.
Fyrirliði: Ragnar Bragi Sveinsson.
Leikjahæstur í efstu deild: Andrés Már Jóhannesson 191.
Markahæstir í efstu deild: Albert Brynjar Ingason 56.

Leikmannahópur Fylkis keppnistímabilið 2021:

MARKVERÐIR:
1 Aron Snær Friðriksson - 1997
12 Ólafur Kristófer Helgason - 2002

VARNARMENN:
2 Ásgeir Eyþórsson - 1993
5 Orri Sveinn Stefánsson - 1996
6 Torfi Tímoteus Gunnarsson - 1999
7 Daði Ólafsson - 1994
8 Ragnar Bragi Sveinsson - 1994
15 Axel Máni Guðbjörnsson - 2002
17 Birkir Eyþórsson - 2000
21 Daníel Steinar Kjartansson - 1998

MIÐJUMENN:
3 Unnar Steinn Ingvarsson - 2000
4 Arnór Gauti Jónsson - 2002
10 Orri Hrafn Kjartansson - 2002
18 Nikulás Val Gunnarsson - 2000
28 Helgi Valur Daníelsson - 1981

SÓKNARMENN:
9 Jordan Brown - 1996
11 Djair Parfitt-Williams - 1996
14 Þórður Gunnar Hafþórsson - 2001
16 Stígur Annel Ólafsson - 2001
22 Dagur Dan Þórhallsson - 2000
23 Arnór Borg Guðjohnsen - 2000
77 Óskar Borgþórsson - 2003

Fylkismenn voru nokkuð óvænt í baráttu um Evrópusæti allt til loka síðasta Íslandsmóts og áttu ágæta möguleika á að ná því þegar mótinu var hætt. Árbæingarnir voru þá yfirleitt ofar en í sjötta sætinu sem varð þeirra endanlega lokastaða.

Helgi Valur Daníelsson er elsti leikmaður deildarinnar í ár en …
Helgi Valur Daníelsson er elsti leikmaður deildarinnar í ár en hann verður fertugur í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hópur þeirra er nokkuð breyttur og mest munar um að Valdimar Þór Ingimundarson er farinn til Noregs en hann lék reyndar ekki síðustu fjóra leikina í fyrra. Án hans er erfiðara að skora mörk enda kom hann beint að 13 mörkum í þeim fjórtán leikjum sem hann spilaði í deildinni. Sam Hewson fór í Þrótt, Hákon Ingi Jónsson í ÍA og Ólafur Ingi Skúlason er hættur.

Englendingurinn Jordan Brown á að fara fyrir sóknarleik Árbæinga og Dagur Dan Þórhallsson gæti gefið liðinu meiri möguleika. Þá gætu strákar eins og Arnór Borg Guðjohnsen og Þórður Gunnar Hafþórsson sprungið betur út í sumar.

Ólafur Ingi Stígsson og Atli Sveinn Þórarinsson eru sitt annað …
Ólafur Ingi Stígsson og Atli Sveinn Þórarinsson eru sitt annað tímabil með Fylkisliðið. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Miðjan er líklega stærsta spurningarmerkið hjá Fylki en þar ætlar Helgi Valur Daníelsson að halda upp á fertugsafmælið í sumar. Fróðlegt verður að sjá hvernig hann kemur upp úr slæmu fótbroti í fyrra. Annars eru Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Stígsson að móta ungt og efnilegt lið sem getur gert öllum skráveifu í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert