Fylkismenn hefja sitt 24. tímabil í efstu deild Íslandsmótsins og það fjórða í röð þegar þeir mæta FH í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla, Pepsi Max-deildarinnar, á Würth-vellinum í Árbæ kl. 19.15 í kvöld.
Besti árangur Fylkis í efstu deild er annað sætið en því náðu Árbæingar bæði árið 2000 og 2002. Þeir urðu jafnframt bikarmeistarar árin 2001 og 2002 og þessi þrjú tímabil eru því þau bestu í sögu félagsins.
Heimavöllur: Würth-völlurinn (Fylkisvöllur) – gervigras.
Þjálfarar: Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Ingi Stígsson.
Aðstoðarþjálfari: Tómas Ingi Tómasson.
Fyrirliði: Ragnar Bragi Sveinsson.
Leikjahæstur í efstu deild: Andrés Már Jóhannesson 191.
Markahæstir í efstu deild: Albert Brynjar Ingason 56.
Leikmannahópur Fylkis keppnistímabilið 2021:
MARKVERÐIR:
1 Aron Snær Friðriksson - 1997
12 Ólafur Kristófer Helgason - 2002
VARNARMENN:
2 Ásgeir Eyþórsson - 1993
5 Orri Sveinn Stefánsson - 1996
6 Torfi Tímoteus Gunnarsson - 1999
7 Daði Ólafsson - 1994
8 Ragnar Bragi Sveinsson - 1994
15 Axel Máni Guðbjörnsson - 2002
17 Birkir Eyþórsson - 2000
21 Daníel Steinar Kjartansson - 1998
MIÐJUMENN:
3 Unnar Steinn Ingvarsson - 2000
4 Arnór Gauti Jónsson - 2002
10 Orri Hrafn Kjartansson - 2002
18 Nikulás Val Gunnarsson - 2000
28 Helgi Valur Daníelsson - 1981
SÓKNARMENN:
9 Jordan Brown - 1996
11 Djair Parfitt-Williams - 1996
14 Þórður Gunnar Hafþórsson - 2001
16 Stígur Annel Ólafsson - 2001
22 Dagur Dan Þórhallsson - 2000
23 Arnór Borg Guðjohnsen - 2000
77 Óskar Borgþórsson - 2003
Fylkismenn voru nokkuð óvænt í baráttu um Evrópusæti allt til loka síðasta Íslandsmóts og áttu ágæta möguleika á að ná því þegar mótinu var hætt. Árbæingarnir voru þá yfirleitt ofar en í sjötta sætinu sem varð þeirra endanlega lokastaða.
Hópur þeirra er nokkuð breyttur og mest munar um að Valdimar Þór Ingimundarson er farinn til Noregs en hann lék reyndar ekki síðustu fjóra leikina í fyrra. Án hans er erfiðara að skora mörk enda kom hann beint að 13 mörkum í þeim fjórtán leikjum sem hann spilaði í deildinni. Sam Hewson fór í Þrótt, Hákon Ingi Jónsson í ÍA og Ólafur Ingi Skúlason er hættur.
Englendingurinn Jordan Brown á að fara fyrir sóknarleik Árbæinga og Dagur Dan Þórhallsson gæti gefið liðinu meiri möguleika. Þá gætu strákar eins og Arnór Borg Guðjohnsen og Þórður Gunnar Hafþórsson sprungið betur út í sumar.
Miðjan er líklega stærsta spurningarmerkið hjá Fylki en þar ætlar Helgi Valur Daníelsson að halda upp á fertugsafmælið í sumar. Fróðlegt verður að sjá hvernig hann kemur upp úr slæmu fótbroti í fyrra. Annars eru Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Stígsson að móta ungt og efnilegt lið sem getur gert öllum skráveifu í sumar.