Gamla ljósmyndin: Ævintýrið í Garðinum

Úr safni Morgunblaðsins

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Íslandsmótið í knattspyrnu er hafið. Hófst í gær og heldur áfram í dag og á morgun. Eitt af ævintýrunum í sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu átti sér stað í Garðinum á níunda áratug síðustu aldar. Lið Víðis, sem ávallt hafði verið í neðstu deild, geystist upp í þá efstu á skömmum tíma.

Meðfylgjandi mynd var tekin snemma á Íslandsmótinu fyrir 35 árum eða í maí árið 1986. Víðismenn voru þá komnir í fótboltabæinn Akranes til að glíma við ÍA í 3. umferð 1. deildar eða efstu deildar. 

Víðismenn höfðu lag á því að ná góðum úrslitum gegn sigursælustu liðum landsins þegar liðið lék í efstu deild. Þegar keppnistímabilinu lauk árið 1984 innan við tveimur árum áður voru Skagamenn tvöfaldir meistarar annað árið í röð en Víðismenn í næstefstu deild. En reyndar með keppnisrétt í efstu deild árið 1985 í farteskinu. (Sennilega Adidas leðurtöskum sem mjög voru í tísku.)

Svo fór að Víðir vann leikinn gegn ÍA á Akranesi föstudaginn 23. maí 1986. Skoraði Grétar Einarsson sigurmark leiksins en hann var lykilmaður í framlínu liðsins á þessum árum. Vilhjálmur bróðir hans er fyrir miðri mynd. Vinstra megin er Björn Vilhelmsson og hægra megin er Mark Duffield, þriðji leikjahæsti leikmaður deildakeppninnar frá upphafi með 400 leiki slétta. Myndin er tekin fyrir leikinn á Akranesi og birtist í Morgunblaðinu daginn eftir eða 24. maí 1986. Myndin er ómerkt í blaðinu sem og í myndasafni blaðsins. Ekki kemur fram í blaðinu hvers vegna leikmenn fengu rósirnar sem þeir halda á. 

Sigþór Eiríksson fjallaði um leikinn í blaðinu undir fyrirsögninni Óvænt á Akranesi. Þar skrifaði hann í inngangi greinarinnar: „Óvæntustu úrslitin í langan tíma litu dagsins ljós á Skaganum í gærkvöld er Víðir sigraði Skagamenn.“ Síðar í greininni segir Sigþór að Ólafur Þórðarson hafi verið yfirburðamaður hjá ÍA í leiknum og Mark Duffield hjá Víði. 

Ekki var furða þótt úrslitin þættu óvænt. Ári áður þegar Víðir var nýliði í efstu deild fengu þeir 7:0 skell á Akranesi. 

Þegar upp var staðið um haustið var Víðir í Garði sjöunda besta knattspyrnulið landsins í karlaflokki. Lið frá sveitarfélagi með rúmlega eitt þúsund íbúa og að langmestu leyti skipað heimamönnum.

Víðir lék í efstu deild 1985, 1986, 1987 og aftur 1991 auk þess sem liðið komst í bikarúrslitaleikinn árið 1987. Þar léku Víðismenn gegn Fram á Laugardalsvellinum en svo skemmtilega vill til að Víðir og Fram mætast einmitt í bikarkeppninni á Garðsvelli í dag.

Ævintýri Víðismanna var rifjað upp í skemmtilegri grein Víðis Sigurðssonar í Morgunblaðinu í fyrra eða 14. maí 2020. Voru þá 35 ár liðin frá fyrsta leik liðsins í efstu deild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert