Kórdrengir og ÍBV mættust í æsispennandi leik í 2. umferð Mjólkurbikars karla á gervigrasvelli Leiknis Reykjavíkur í Breiðholtinu í dag. Framlengingu og vítaspyrnukeppni þurfti til þess að knýja fram sigur og voru það gestirnir frá Vestmannaeyjum sem reyndust hlutskarpari.
ÍBV tók forystuna á 65. mínútu þegar Eiður Aron Sigurbjörnsson skoraði en Hákon Ingi Einarsson jafnaði fyrir Kórdrengi seint í leiknum á 85. mínútu. Því þurfti að framlengja.
Framlengingin var ekki síður æsileg þar sem Kórdrengir tóku forystuna á 94. mínútu með marki Þóris Rafns Þórissonar. Eyjamenn jöfnuðu á 107. mínútu, Guðjón Pétur Lýðsson, og staðan þar með orðin 2:2.
Skömmu síðar, á 111. mínútu, komust Kórdrengir í 3:2 þegar Þórir Rafn skoraði aftur. Á fjórðu mínútu uppbótartíma framlengingarinnar jafnaði Guðjón Pétur svo í 3:3 úr vítaspyrnu og knúði þannig fram vítaspyrnukeppni.
Vitanlega var hún líka æsispennandi og endaði með 6:5 sigri ÍBV eftir að bæði lið höfðu tekið sjö spyrnur.
Einn leikur til viðbótar sem byrjaði klukkan 16 fór líka fram í Mjólkurbikarnum. Þar vann Njarðvík öruggan 5:0 útisigur gegn Álafossi.
ÍBV og Njarðvík eru þar með komin í 32-liða úrslit bikarsins.
Úrslit úr leikjunum tveimur eru fengin af Úrslit.net.