KA-menn hefja sitt 20. tímabil í efstu deild Íslandsmótsins og það fimmta í röð þegar þeir mæta HK í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla, Pepsi Max-deildarinnar, í Kórnum í Kópavogi klukkan 17 í dag.
KA náði sínum besta árangri í sögunni árið 1989 þegar félagið varð Íslandsmeistari í fyrsta og eina skiptið til þessa. KA hefur þrisvar leikið til úrslita í bikarkeppninni, 1992, 2001 og 2004, en beið lægri hlut í öll skiptin.
Heimavöllur: Greifavöllurinn (Akureyrarvöllur) – gras.
Þjálfari: Arnar Grétarsson.
Aðstoðarþjálfarar: Hallgrímur Jónasson og Steingrímur Örn Eiðsson.
Fyrirliðar: Ívar Örn Árnason og Ásgeir Sigurgeirsson.
Leikjahæstur í efstu deild: Erlingur Kristjánsson 127.
Markahæstir í efstu deild: Elfar Árni Aðalsteinsson 27.
Leikmannahópur KA keppnistímabilið 2021:
MARKVERÐIR:
12 Kristijan Jajalo - 1993
13 Steinþór Már Auðunsson - 1990
24 Einar Ari Ármannsson - 2003
VARNARMENN:
2 Haukur Heiðar Hauksson - 1991
3 Dusan Brkovic - 1989
5 Ívar Örn Árnason - 1996
6 Hallgrímur Jónasson - 1986
16 Brynjar Ingi Bjarnason - 1999
17 Ýmir Már Geirsson - 1997
22 Hrannar Björn Steingrímsson - 1992
26 Jonathan Hendrickx - 1993
27 Þorri Mar Þórisson - 1999
31 Kári Gautason - 2003
MIÐJUMENN:
4 Rodrigo Gómez - 1989
7 Daníel Hafsteinsson - 1999
8 Sebastiaan Brebels - 1995
14 Andri Fannar Stefánsson - 1991
25 Björgvin Máni Bjarnason - 2004
30 Sveinn Margeir Hauksson - 2001
32 Þorvaldur Daði Jónsson - 2002
77 Bjarni Aðalsteinsson - 1999
SÓKNARMENN:
9 Elfar Árni Aðalsteinsson - 1990
10 Hallgrímur Mar Steingrímsson - 1990
11 Ásgeir Sigurgeirsson - 1996
18 Áki Sölvason - 1999
20 Gunnar Örvar Stefánsson - 1994
21 Nökkvi Þeyr Þórisson - 1999
23 Steinþór Freyr Þorsteinsson - 1985
KA gæti komið ýmsum spekingum á óvart í sumar og spurningin er hvort Akureyrarliðið sé komið með nægilega sterkan hóp til þess að stíga skrefið upp í efri hluta deildarinnar.
Hópur KA er sterkari en í fyrra þegar liðið endaði í sjöunda sæti, sama sæti og því er spáð núna. Í það minnsta á pappírunum. Belgarnir Jonathan Hendrickx og Sebastiaan Brebels eru komnir norður, sem og serbneski miðvörðurinn Dusan Brkovic, ásamt því að KA hefur endurheimt Daníel Hafsteinsson.
Þeir Brebels og Daníel fylla vel skarðið sem Almarr Ormarsson skilur eftir og Hendrickx er vel þekkt stærð hérlendis sem hægri bakvörður. Þá verða Elfar Árni Aðalsteinsson og Haukur Heiðar Hauksson með á ný eftir fjarveru í fyrra vegna meiðsla og Hallgrímur Jónasson er væntanlegur á miðju sumri. Elfar ætti að koma beint í framherjastöðuna í stað Guðmundar Steins Hafsteinssonar.
Arnar Grétarsson tók við KA þegar fimm umferðum var lokið í fyrra og liðið tapaði aðeins einum leik af þrettán undir hans stjórn það sem eftir var tímabilsins. Reyndar endaði stór hluti þeirra með jafntefli en KA tapaði ekki leik á erfiðum Akureyrarvellinum. Verði KA-menn jafn erfiðir heim að sækja í ár og nái að snúa fleiri jöfnum leikjum í sigra hafa þeir burði í sínum hópi til að gera betur en spáin segir til um.