Maður vill þiggja svona gjafir

Brynjar Björn Gunnarsson er þjálfari HK.
Brynjar Björn Gunnarsson er þjálfari HK. mbl.is/Hari

Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK kvaðst þokkalega sáttur við niðurstöðu dagsins en Kópavogsliðið gerði markalaust jafntefli við KA í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í fótbolta, Pepsi Max-deildarinnar, í Kórnum í dag.

„Ég er þokkalega sáttur við frammistöðuna og leikinn sem var í sjálfu sér lokaður í báða enda. Hvorki KA né við gáfum mikil færi á okkur. Við fengum eitt gott færi í fyrri hálfleik og eitt dauðafæri í seinni hálfleik. Auðvitað var svekkjandi að skora ekki úr því. Þegar maður fær svona gjafir vill maður þiggja þær. Í heildina var þetta fínn fyrsti leikur, aðeins til að hrista skrekkinn úr mönnum og hefja mótið,“ sagði Brynjar Björn við mbl.is.

„Við létum þá ýta okkur fullaftarlega í seinni hálfleik, án þess að þeir ógnuðu þó okkar marki verulega. Við hefðum getað verið beittari í okkar skyndisóknum á þeim kafla, og haldið betur í boltann þegar við náðum honum,“ sagði Brynjar.

Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK lék ekki með þar sem hann fór í aðgerð vegna kviðslits en að öðru leyti sagði Brynjar að ástandið á leikmannahópi sínum væri gott.

„Það eru allir heilir og í góðu standi nema Leifur Andri. Það gætu verið þrjár til fjórar vikur í hann en þegar hann er kominn aftur erum við með nokkuð þéttan og jafnan hóp, ef aðrir meiðast ekki á meðan.“

Valgeir Valgeirsson kom inn í hóp HK og spilaði síðustu tíu mínúturnar en hann var í láni hjá Brentford á Englandi frá því í október og lék með varaliði félagsins.

„Hann kom á síðustu stundu, slapp úr sóttkví í gær og var klár í dag, ekkert vesen með það. Hann er búinn að vera í fótbolta úti, æfa og spila í allan vetur, svo ég hafði engar áhyggjur af því að setja hann á bekkinn í dag, inn í hóp sem hann þekkir. Það hefði verið erfiðara fyrir nýjan leikmann að koma inn í svona stöðu,“ sagði Brynjar.

Og Valgeir fékk færi þarna undir lokin!

„Já, hann fékk færi en ég hefði frekar viljað fá aukaspyrnu og spjald á Rodrigo í aðdragandanum að því. Sú ákvörðun hjá dómaranum var dálítið skrýtin. Vissulega fékk Valgeir færi en með vitlausum fæti og ég held að aukaspyrna á vítateigslínu hefði verið betra færi til að skora,“ sagði Brynjar Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert