Sanngjörn úrslit - KA leitar að markverði

Arnar Grétarsson er þjálfari KA.
Arnar Grétarsson er þjálfari KA. mbl.is/Árni Sæberg

Arnar Grétarsson þjálfari KA sagði eftir jafnteflið við HK í Kórnum í dag, í úrvalsdeild karla í fótbolta, að úrslitin væru sanngjörn og hann staðfesti að KA-menn væru að leita að markverði.

Auðvitað hefði ég viljað koma hingað og sækja þrjú stig en ég geri mér grein fyrir því að það er ekki auðvelt að koma hingað. Ég sá marga leiki með HK áður en ég kom í KA og hef verið mjög hrifinn af því hvernig þeir hafa spilað. Þeir eru agressífir og með marga flotta leikmenn,“ sagði Arnar við mbl.is eftir leikinn.

„Svo er það alltaf þannig í byrjun að það er erfitt að koma inn í mótið. Maður sá síðustu tuttugu mínúturnar að það var stress í mönnum og það sást vel að það vantaði mikið upp á gæðin hjá báðum liðum á síðasta þriðjungi vallarins. Ég held að bæði þessi lið eigi að geta sýnt mun meira fram á við en þau gerðu í dag.

Varnarleikurinn hjá okkur var mjög traustur en auðvitað gerði Dusan rosaleg mistök sem HK hefði átt að refsa okkur fyrir en Stubbur [Steinþór Már Auðunsson] stóð sig frábærlega þar. Þeir fengu eitt færi í fyrri hálfleik eftir glæsilega fyrirgjöf frá Birki en þá er þetta nokkurn veginn upp talið.

En við vorum svo sannarlega ekki með aragrúann af færum sjálfir. Við komum okkur í góðar stöður en sköpuðum okkur ekki nema kannski eitt alvörufæri úr því allan leikinn. Í öðrum tilvikum áttu menn að gera betur. Þegar á reyndi var ekki rétt ákvarðanataka, sendingin ekki góð og svo framvegis.

Það er stress og ryð í mönnum. Við höfum ekki spilað marga leiki í vetur við lið í þessum gæðaflokki, bara við HK, Val og Breiðablik og þá er það upptalið. Aðrir leikir hafa verið gegn liðum fyrir norðan. Ég er ánægður með að við skyldum halda markinu hreinu. Bragurinn var ágætur á liðinu og margt mjög ágætt. En ég vil meina að þegar við erum með leikmenn eins og Hallgrím, Ásgeir og Nökkva eigum við að geta gert meira.

En, við vorum að spila við hörkulið og HK tekur hvaða lið sem er á góðum degi. Auðvitað vill maður alltaf þrjú stig en þetta var bara sanngjarnt og maður verður að sætta sig við þetta og vera heiðarlegur,“ sagði Arnar.

Meiðslahrina hjá KA-mönnum

Mikil meiðsli hrjá KA-menn þessa dagana og á æfingu í vikunni handarbrotnaði markvörðurinn Kristijan Jajalo, miðjumaðurinn Sebastiaan Brabels slasaðist á ökkla á sömu æfingu og framherjinn Elfar Árni Aðalsteinsson, sem missti af síðasta tímabili, er einnig úr leik í bili. Arnar sagði að staðan á hópnum væri vissulega ekki góð.

„Jajalo er illa brotinn svo hann verður í burtu í eina þrjá mánuði. Við erum mjög ungan og efnilegan 15 ára markmann en það er ekki hægt að ætlast til þess að hann komi í markið ef Stubbur meiðist. Við erum því að leita að markmanni erlendis og við klárum það vonandi fljótlega eftir helgina.

Svo vorum við líka að athuga með annan mann í hópinn því Elfar Árni leit mjög vel út en svo fékk hann eitthvað slæmt undir ilina. Hann hefur verið frá í tvær vikur og við vitum ekki hvenær hann verður klár. Brabels meiddist slysalega á æfingu og við vitum ekki enn þá hvort hann sé brotinn eða með slitin liðbönd. Ef svo er ekki, þá er mögulegt að hann gæti spilað eftir tvær til þrjár vikur. Hann er búinn að vera flottur hjá okkur, enda hörkuspilari.

Bjarni fékk kórónuveiruna

Bjarni Aðalsteinsson átti að koma fyrir tíu dögum en fékk Covid úti í Bandaríkjunum og er því enn þá þar. Það er öflugur strákur sem spilaði alla leikina í fyrra. Hann má ekki fljúga enn þá en vonandi getur hann komið heim um næstu helgi. Þorri Mar Þórisson er líka frá.

Fyrir tveimur vikum vorum við með svo stóran hóp að við héldum að við myndum lána einhverja leikmenn. Núna erum við komnir með þrjá unga stráka á bekkinn. Við höfum misst út eina sex leikmenn á síðustu vikum og þrír þeirra gætu verið lengi frá. Ef þeir detta allir út í maímánuði er búinn einn þriðji af mótinu. En það þýðir ekkert að væla og skæla yfir þessu,“ sagði Arnar Grétarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert