Rekinn af velli í frumrauninni með Stjörnunni

Hilmar Árni Halldórsson með boltann í leiknum í kvöld.
Hilmar Árni Halldórsson með boltann í leiknum í kvöld. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Stjarnan og Leiknir úr Reykjavík gerðu markalaust jafntefli í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. 

Leikurinn er hluti af fyrstu umferð deildarinnar og nýliðar Leiknis eru þá strax komnir á blað í stigasöfnun. 

Leikurinn var tíðindalítill lengi vel en fjör færðist í leikinn á lokakaflanum og þá sköpuðu liðin nokkur færi sem ekki nýttust eins og úrslitin sýna. 

Helstu tíðindin voru þau að Einar Karl Ingvarsson fékk rauða spjaldið á 87. minútu i fyrsta leik sínum með Stjörnunni á Íslandsmótinu. Einar gerði mistök sem aftasti maður og Sólon Breki Leifsson var að sleppa einn inn fyrir. Einar fórnaði sér fyrir liðið og sparkaði Sólon niður og var því rekinn út af. 

Leikmenn liðanna fóru varfærnislega af stað í deildinni. Leikurinn var ansi hægur og minnti svolítið á leiki á undirbúningstímabili. Að því sögðu felst ekki gagnrýni á liðin eða leikmennina. Eftir stopult og skrítið undirbúningstímabil er ekki heiglum hent að mæta til leiks og sýna glimrandi spilamennsku í fyrsta leiknum. 

Nýliðarnir í Leikni hafa takmaða reynslu úr efstu deild. Þar á bæ hafa menn beðið spenntir eftir þessum leik í marga mánuði og það mátti greina í fyrri hálfleik. Þeir virtust taugaspenntir til að byrja með en náðu smám saman að jafna sig. 

Rólegt var yfir leiknum í fyrri hálfleik en þá komst miðvörður Stjörnunnar Brynjar Gauti Guðjónsson líklega næst því að skora. Hann átti fínan skalla á 14. mínútu en Guy Smit varði glæsilega. 

Færin voru fleiri í síðari hálfleik og þá fyrst og fremst vegna líflegs lokakafla. Emil Atlason kom reyndar boltanum í netið hjá Leikni á 78. mínútu en Helgi Mikael Jónasson dómari leiksins dæmdi hendi á Hilmar Árna Halldórsson sem hafði komið boltanum á Emil. 

Einar Karl átti mjög hættulega sendingu inn á teiginn hjá Leikni á 83. mínútu. Emil náði til boltans og kom honum á markið en náði ekki að gera það af nógu miklum krafti til að koma Smit í vandræði. 

Leiknismenn fengu tvö fín tækifæri á lokakaflanum til að næla í öll stigin. Eftir að Einar Karl var rekinn út af var aukaspyrnan send inn á markteig. Þar náði Brynjar Hlöðversson að skalla á markið en Haraldur Björnsson varði vel. 

Í uppbótartíma fékk Sævar Atli Magnússon sendingu frá Daníel Finns Matthíassyni og komst inn í teiginn hægra megin. Sendingin virkaði sakleysisleg en Daníel Laxdal féll við og því komst Sævar einn á móti Haraldi sem lokaði vel á hann með úthlaupi. 

Leiknismenn vörðust fimlega í leiknum.
Leiknismenn vörðust fimlega í leiknum. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson
Stjarnan 0:0 Leiknir R. opna loka
90. mín. Sex mínútum er bætt við leiktímann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert