HK og KA gerðu markalaust jafntefli í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í Kórnum í dag.
Þar með hefur KA gert þrettán jafntefli í síðustu nítján leikjum sínum í deildinni.
Eftir talsverða pressu HK á upphafsmínútunum var KA sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og vörn HK átti nokkrum sinnum í vök að verjast. Akureyringar sköpuðu sér þó ekki teljandi marktækifæri. Hallgrímur Mar Steingrímsson átti þeirra bestu marktilraun á 16. mínútu þegar hann skaut rétt fram hjá marki HK frá vítateig.
Birkir Valur Jónsson hægri bakvörður HK gerði nokkrum sinnum usla í vörn KA með rispum upp kantinn og fyrirgjöfum og eftir eina slíka fékk Bjarni Gunnarsson besta færi fyrri hálfleiks þegar hann skallaði hárfínt fram hjá marki Akureyringa af markteig.
Fjögur gul spjöld fóru hins vegar á loft hjá Pétri Guðmundssyni, aldursforseta dómarastéttarinnar, í fyrri hálfleiknum, tvö á hvort lið, og Rodrigo Gómez miðjumaður KA fékk sitt strax á þriðju mínútu. Hann slapp með skrekkinn undir lok hálfleiksins þegar hann stöðvaði hraða sókn HK en var ekki refsað fyrir.
KA byrjaði seinni hálfleik vel og strax á 50. mínútu átti Jonathan Hendrickx hörkuskot hægra megin úr vítateignum sem Arnar Freyr Ólafsson í marki HK varði vel.
KA sótti mjög stíft á köflum en fékk ekki opin færi. Það var hins vegar HK sem fékk sannkallað dauðafæri á 72. mínútu. Stefan Ljubicic komst inn í sendingu Dusan Brkovic til markvarðar, slapp aleinn gegn Steinþóri Má Auðunssyni markverði sem gerði mjög vel með því að verja skot Stefans í horn.
Valgeir Valgeirsson kom inn á hjá HK á 81. mínútu og hann komst í gott færi á 86. mínútu en skaut beint á Steinþór í markinu. Atli Arnarson var felldur við vítateigslínu í aðdragandanum en Pétur gaf hagnað og því ekkert dæmt.
Þrátt fyrir hasar fram og til baka á lokamínútunum kom sigurmarkið aldrei og liðin því bæði komin með sitt fyrsta stig.
Í heildina séð eru úrslitin sanngjörn. KA var sterkari aðilinn, sótti í það minnsta mun meira en skapaði sér nánast engin marktækifæri gegn vel skipulögðum varnarleik HK-inga. HK fékk hins vegar tvö bestu færin, hvort í sínum hálfleik.
Steinþór Már Auðunsson var bjargvættur KA í sínum fyrsta leik í efstu deild, 31 árs að aldri, þegar hann varði úr dauðafærinu frá Stefani Ljubicic. Steinþór er þrautreyndur markvörður sem hefur spilað lengi í neðri deildunum á Norðurlandi, síðast þrjú ár með Magna í 1. deild. Ljóst er að Kristijan Jajalo verður frá í minnst 2-3 mánuði eftir að hafa handarbrotnað illa á æfingu í vikunni og Arnar Grétarsson þjálfari KA staðfesti við mbl.is eftir leikinn að félagið væri að leita að erlendum markverði.
KA hefur fengið öflugan miðvörð í Dusan Brkovic en hann var þó nærri því búinn að klúðra leiknum fyrir norðanmenn með sendingunni sem Stefan komst inn í. Annars var það félagi hans í miðvarðastöðunni Brynjar Ingi Bjarnason sem var besti maður KA og steig ekki feilspor.
HK gekk verr en oft áður að skapa sér færi þótt þau hefðu vissulega komið og verið hættuleg. Rétt eins og hjá KA voru varnarmennirnir sterkustu leikmenn liðsins, miðverðirnir Guðmundur Júlíusson og Martin Rauschenberg, traustir og stigu engin feilspor og bakverðirnir Birkir Valur og Ívar Örn Jónsson drjúgir. Sérstaklega Birkir sem skapaði nánast allt í sóknarleik Kópavogsliðsins.