Við erum alls ekki sáttir

Ásgeir Sigurgeirsson er fyrirliði KA.
Ásgeir Sigurgeirsson er fyrirliði KA. Ljómynd/Þórir Tryggvason

Ásgeir Sigurgeirsson sóknarmaður og fyrirliði KA-manna kvaðst ekki vera sáttur við markalausa jafnteflið gegn HK í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar í fótbolta, Pepsi Max-deildarinnar, í Kórnum í dag.

„Nei, við erum alls ekki sáttir við þessi úrslit því við ætluðum okkur að sækja þrjú stig hingað. Mér fannst við vera betri aðilinn í leiknum en það má þó segja að ef okkur tekst ekki að skapa færi og nýta þau þá eigum við ekkert skilið,“ sagði Ásgeir við mbl.is eftir leikinn.

„Við héldum oft boltanum vel en vantaði að klára dæmið á síðasta þriðjungi vallarins. Við gerðum oft mjög vel en síðasta sendingin klikkaði yfirleitt. En þetta er samt eitthvað sem við getum byggt á. Við erum með sterkan hóp og teljum okkur geta unnið alla leiki. Það er mikil samkeppni í hópnum, okkur vantaði í dag menn sem eru meiddir og það þurfa allir að vera á tánum,“ sagði Húsvíkingurinn sem var fremsti maður KA-liðsins í dag.

KA gerði enn eitt jafnteflið en í fyrra enduðu tólf af átján leikjum liðsins í deildinni með jafntefli. Ásgeir sagðist ekki hafa teljandi áhyggjur af því.

„Nei, ekki enn þá alla vega. Svo framarlega sem við fáum ekki á okkur mark þá dugar eitt til að vinna. Núna þurfum við að fá sóknarleikinn betur í gang en við skoruðum mikið á undirbúningstímabilinu svo það er ekkert sem ég hef áhyggjur af.

Hann sagði að markmið liðsins væru skýr. „Já, við höfum sett okkur markmið innan hópsins og þetta var fyrsta stigið í þá átt. Við vorum í sjöunda sæti í fyrra og ætlum okkur miklu meira.“

Spurður hvort það væri þá Evrópusæti: „Já, af hverju ekki,“ svaraði Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert