Sjö leikjum til viðbótar er lokið í 2. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Þar voru flest úrslitin eftir bókinni en 3. deildarlið Sindra sló þó út 2. deildarlið Fjarðabyggðar.
Völsungur lenti ekki í miklum vandræðum með nágranna sína frá Akureyri í Hömrunum. Sæþór Olgeirsson skoraði fimm mörk í 9:1 stórsigri, þar af þrennu í fyrri hálfleik. Staðan var 5:0 í hálfleik, auk þess sem Hamrarnir misstu mann af velli með rautt spjald undir lok fyrri hálfleiksins
1. deildarlið Fram gerði góða ferð í Garðinn og vann 3. deildarlið Víðis 2:0 með mörkum frá Aroni Þórði Albertssyni og Fred hvoru í sínum hálfleiknum.
Þá heimsótti 1. deildarlið Gróttu 2. deildarlið Þróttar frá Vogum og lenti í nokkrum vandræðum. Staðan í hálfleik var 1:1 en tvö mörk frá Pétri Theodóri Árnasyni í síðari hálfleiknum tryggðu Seltirningum að lokum 3:1 sigur.
Í grannaslag Dalvíkur/Reynis, sem leikur í 3. deildinni, og KF, sem leikur í 2. deildinni, var svo mikill hasar og dramatík. Í stöðunni 0:0 fengu gestirnir í KF rautt spjald, en skoruðu svo á 84. mínútu. Á fimmtu mínútu uppbótartíma jöfnuðu hins vegar heimamenn og og tryggðu sér framlengingu.
Í framlengingunni bættust við þrjú rauð spjöld og þrjú mörk. Dalvík/Reynir fékk tvö rauð spjöld og skoraði eitt og KF fékk annað rautt spjald og skoraði tvö og vann þar með 3:2 sigur í hörkuleik.
Úrslitin úr síðdegisleikjunum:
Völsungur – Hamrarnir 9:1
Víðir – Fram 0:2
Þróttur Vogum – Grótta 1:3
Dalvík/Reynir – KF 2:3 (frl.)
Fjarðabyggð - Sindri 0:1
Kári – Skallagrímur 5:1
KFS – Kría 4:0
Áður höfðu Víkingur Ólafsvík og Vestri tryggt sér sæti í 32-liða úrslitum bikarsins með sigrum fyrr í dag.