Vonast til að ná fyrsta leik

Andrea Rán Hauksdóttir í leik með Breiðabliki síðasta sumar.
Andrea Rán Hauksdóttir í leik með Breiðabliki síðasta sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir vonast til að ná fyrsta leik Breiðabliks gegn Fylki í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, á þriðjudaginn kemur en þetta staðfesti hún í samtali við mbl.is í dag.

Andrea Rán er samningsbundin Breiðabliki en hún hefur leikið á láni með franska 1. deildarfélaginu Le Havre í vetur.

Miðjukonan, sem hefur gert sig gildandi í landsliðinu að undanförnu, er á leið heim til Íslands en hún lék allan leikinn með Le Havre í gær þegar liðið tapaði 5:1-fyrir Frakklandsmeisturum Lyon á útivelli.

Ef allt gengur upp þá ætti ég að ná fyrsta leik,“ sagði Andrea í samtali við mbl.is í morgun en hún var lykilkona í liði Breiðabliks þegar liðið varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð.

Blikar hefja titilvörnina gegn Fylki þriðjudaginn 4. maí á Kópavogsvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert