Hilmar Árni Halldórsson sagði Stjörnuna hafa misst af tveimur stigum þegar liðið mætti Leikni í PepsíMax deildinni í knattspyrnu í kvöld en sagði margt ágætt við spilamennskuna.
Liðin gerðu markalaust jafntefli í 1. umferð deildarinnar.
„Já ég held að það sé ekki hægt að orða þetta öðruvísi en að við höfum misst af tveimur stigum. Þetta eru svekkjandi úrslit. Það var margt ágætt í spilamennsku okkar og við þurfum að nýta færin betur og þá kemur þetta,“ sagði Hilmar Árni þegar mbl.is spjallaði við hann að leiknum loknum í kvöld.
Hilmar Árni lék lengi með Leikni áður en hann fór til Stjörnunnar fyrir tímabilið 2016 og sló í gegn þegar Leiknir lék síðast í efstu deild árið 2015. Fylgja því tilfinningar fyrir hann að mæta Leikni?
„Já það er gerir það. Þetta er félag sem mér þykir vænt um og þekki marga í liðinu. En þegar út á völlinn er komið þá er þetta bara fótbolti.“
Eftir sérkennilegt undirbúningstímabil sem litaðist af samkomutakmörkunum getur verið erfitt fyrir liðin að finna taktinn í upphafi móts. Hvað telur Hilmar Árni að það geti tekið langan tíma?
„Það er erfitt að segja. Kannski á maður ekki að pæla of mikið í því. Öll lið fengu sama undirbúning og við munum ekki fela okkur á bak við neinar svoleiðis afsakanir. Þegar út á völlinn er komið er okkar að standa okkur,“ sagði Hilmar ennfremur.