Grétar Snær Gunnarsson átti mjög góðan leik í hjarta varnar KR þegar liðið vann góðan 2:0 sigur gegn Breiðabliki í stórleik fyrstu umferðar Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu í kvöld.
„Tilfinningin er mjög góð, ég er ánægður með sigurinn og vinnsluna í liðinu,“ sagði Grétar Snær í samtali við mbl.is eftir leik.
Spurður hvað hafi skapað sigurinn stóð ekki á svörum: „Það er byrjunin hjá okkur, hvernig við pressuðum og unnum boltann, og bara vinnslan allan leikinn. Við hættum aldrei, það var það sem skóp sigurinn,“ sagði hann.
Eftir frábæran fyrri hálfleik þar sem KR hefði hæglega getað bætt við fleiri mörkum færðist liðið aftar á völlinn í þeim síðari. Grétar Snær sagði ekki hafa verið lagt upp með að gera það en KR hefði unað hag sínum vel tveimur mörkum yfir.
„Þeir náðu að finna einhverjar glufur eftir einhvern tíma og þá náðum við ekki að pressa jafn vel. En þá dettum við niður, við vorum komnir í fína stöðu þannig að það var allt í lagi. Það var bara fínt.“
Grétar Snær er miðjumaður að upplagi en er fyrst og fremst hugsaður sem miðvörður hjá KR. Hann var inn á milli í miðverði með Fjölni í fyrra og kvaðst ánægður með að spila þessa stöðu hjá KR.
„Ég bara elska það. Það er mjög gaman. Nóri [Arnór Sveinn Aðalsteinsson] og Rúnar og allir eru að hjálpa mér mikið. Ég er alltaf að læra, á hverjum degi og í hverjum leik þannig að þetta er bara á uppleið.“
Hann bar Arnóri Sveini, félaga sínum í miðverðinum, afar vel söguna og sagði afar gott að spila með honum. „Það er bara fullkomið. Hann er alltaf að stýra mér og tala við mig og kenna mér á æfingum þannig að ég er mjög heppinn með hann.“
Að lokum sagði hann að KR-liðið muni byggja á sigri kvöldsins. „Jú jú, 100 prósent. Þetta er bara fyrsti leikur og það er bara að halda áfram. Það er bara þannig.“