„Leikurinn illa lagður upp af minni hálfu“

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Eggert Jóhannesson

„Fyrstu 15 mínúturnar voru ekki góðar, þar fer leikurinn. Við náðum ekki takti í sóknarleikinn í fyrri hálfleik og vorum ólíkir sjálfum okkur. Spennustigið var einhvern veginn ekki rétt, sem ég verð að taka á mig. Byrjunin á leiknum var ekki góð sem ég sem þjálfari þarf að taka á mig.

Seinni hálfleikur var betri, mér fannst við vera betri aðilinn í seinni hálfleik. En mér fannst sem það vantaði markið, það vantaði endapunktinn til þess að geta sett þá undir raunverulega alvörupressu. En við náðum ekki þessu marki og þá einhvern veginn eftir því sem líða tekur á leikinn verður þetta erfiðara.“

Þetta sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 0:2 tap á heimavelli gegn KR í fyrstu umferð Pepsi Max-deildarinnar í kvöld.

Hann sagði ýmislegt hafa farið úrskeiðis hjá liði sínu í kvöld. „Sitt lítið af hverju. Það er erfitt þegar við fáum tvö skot á okkur og tvö mörk í byrjun, þetta voru heldur ódýr mörk. Við gefum of margar feilsendingar, við hreyfum boltann ekki nógu hratt, við gætum verið grimmari.

Sérstaklega í fyrri hálfleik, ef eitthvað var að, þá getur þú sennilega tikkað í flest box. Við vorum bara lélegir í fyrri hálfleik. Leikurinn var illa lagður upp af minni hálfu, spennustigið var lélegt og þar töpuðum við leiknum.“

Látum þennan leik ekki skilgreina okkur

Þrátt fyrir vonbrigði með leik kvöldsins sagði hann Breiðablik eiga mikið inni og að þessi staki leikur muni ekki koma til með að skilgreina liðið.

„Við getum ekki látið þennan leik skilgreina okkur; skilgreina liðið, skilgreina leikmenn. Við getum það ekki. Ég held að við þurfum bara að horfa á alla vinnuna sem við erum búnir að leggja í veturinn. Þetta lið verður ekki lélegt á einni nóttu og það varð heldur ekki gott á einni nóttu.“

Óskar Hrafn sagðist enda búast fastlega við því að Breiðablik muni sýna sitt rétta andlit í næsta leik. „Vinnan sem við erum búnir að leggja á okkur held ég að sé aðalatriðið. Ég hef tröllatrú á þessu liði, liðið er gott. Við munum sýna það. Einn stakur leikur til eða frá skiptir engu máli þótt auðvitað vilji allir byrja vel. Auðvitað viltu vinna KR á heimavelli og byrja mótið með fljúgandi starti en við fáum ekki alltaf allt sem við viljum.

Stundum þurfum við að fara Krýsuvíkurleiðina. Ég hef enga trú á öðru en að mitt lið muni stíga upp og sýna sitt rétta andlit á mjög erfiðum útivelli gegn Leikni. Við horfum á þennan leik, lærum af honum og tökum eitthvað gott út úr honum og eitthvað slæmt en við látum hann ekki skilgreina okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert