Okkur leið ofboðslega vel aftarlega

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ánægður með sigur sinna manna …
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ánægður með sigur sinna manna í kvöld. Eggert Jóhannesson

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sagði mikla tiltrú liðsins vegna góðs gengis gegn Breiðabliki á síðasta ári hafa átt sinn þátt í því að KR-ingar unnu Blikana enn á ný í kvöld, nú með tveimur mörkum gegn engu. KR vann Breiðablik tvisvar í deildinni og einu sinni í Mjólkurbikarnum í fyrra.

„Þetta var frábær sigur á móti mjög góðu Blikaliði sem allir eru að spá Íslandsmeistaratitli, sem á fullan rétt á sér. Þetta er gott lið en við komum með mikið sjálfstraust inn í leikinn, með mikla trú, eftir að hafa gengið vel hér í fyrra. Það var mikilvægt fyrir okkur að ná fyrsta markinu og enn þá skemmtilegra að það kom svona snemma. Mark númer tvö kemur svo mjög fljótt á eftir.

Ég held að það hafi gefið okkur aðeins aukið sjálfstraust og höggstað á Blikum. Þeir fóru svona aðeins inn í skel í smástund en svo tóku þeir aðeins yfir hálfleikinn, svona síðustu 15 mínúturnar af fyrri hálfleik, og þrýstu okkur aftar en okkur leið ofboðslega vel þar. Við vörðumst ofboðslega vel og gáfum fá færi á okkur. Svo áttum við nokkrar stórhættulegar skyndisóknir sem við hefðum getað nýtt betur til að bæta þriðja markinu við,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is eftir leik.

„Í síðari hálfleik þá er mikill vindur í bakið á Blikum og þeir þrýstu okkur strax aftur og breyttu greinilega aðeins um taktík og áttu þarna 2-3 dauðafæri sem þeir nýttu ekki, og fullt af skotum sem við bara hentum okkur fyrir og vörðumst vel. Við sköpuðum okkur ekki mikið í síðari hálfleik og Blikar stjórnuðu ferðinni en okkur leið vel, við vorum sáttir og vildum sigla heim þessum þremur stigum,“ bætti hann við.

Lagt upp með hápressu

KR mætti Blikum með gífurlegri pressu fyrri hluta fyrri hálfleiksins. Rúnar sagði hafa verið lagt upp með að gera það.

„Já við viljum það, sérstaklega á móti Breiðabliki ef þeir ætla að spila út frá markmanni. Við höfum gert það, þrisvar sinnum í fyrra og aftur núna, að reyna að loka á þetta spil þeirra og hleypa þeim ekki auðveldlega upp völlinn. Blikar eru gríðarlega sterkir ef þeir fá tíma á boltanum og geta þrýst andstæðingi sínum aftar á völlinn. Við vildum ekki leyfa þeim það svona óáreittir þannig að við fórum hátt á þá, reyndum að pressa þá.

Það gekk vel í byrjun, fyrstu 20-25 mínúturnar en svo vorum við ekki nógu duglegir að loka á þá og þeir ná að spila sig út úr því og við það skapast ákveðin hætta. Þannig að ég var feginn þegar það var kominn hálfleikur. Þá gátum við lagað þá hluti því við vorum farnir að sleppa þeim allt of auðveldlega út úr þessari pressu og þá eru þeir stórhættulegir en sem betur fer þá nýttu þeir sér ekki þá möguleika sem buðust,“ sagði hann.

Horfa ofar á töfluna

KR hefur víðast hvar verið spáð fjórða eða fimmta sætinu í Pepsi Max-deildinni í ár, þótt Morgunblaðið og mbl.is hafi að vísu spáð liðinu í þriðja sæti. Rúnar sagði KR horfa ofar en 4. – 5. sætið.

„Jú auðvitað gerum við það. Ég held að allar svona spár séu til gamans gerðar og þær litast svolítið af því hvernig lið hafa verið að manna sig, breidd á leikmannahópi og svo kannski árangri í æfingaleikjum. Þar hefur Breiðablik gert allt; hafa bætt við sig mörgum leikmönnum, búnir að vinna alla leikina nema núna og hafa verið mjög flottir og að spila flottan fótbolta. Það er eðlilegt að okkur sé spáð þarna, mér finnst það bara virkilega eðlileg spá. Ef ég horfi bara á FH, Val, Breiðablik og skoða breiddina í þessum liðum þá er hún mun meiri en okkar.“

Hann sagði KR á meðan hafa misst öfluga leikmenn. „Á meðan misstum við reynslumikla menn í Finni Tómasi [Pálmasyni], við misstum Pablo [Punyed] og Finn Orra [Margeirsson]. Við höfum fengið inn stráka sem eru kannski ekki jafn stór nöfn eins og Grétar Snæ [Gunnarsson], fengum Guðjón Baldvinsson til baka en það er í allt öðrum stöðum, fyrir utan að Grétar kemur inn fyrir Finn.“

Að lokum greindi Rúnar frá því að Emil Ásmundsson væri frá í átta vikur eftir að hafa gengist undir aðgerð á liðþófa.

„Við höfum ekki fengið miðjumann en við höfðum fyrir góða miðju og erum með stráka eins og Emil sem reyndar er frá í átta vikur núna, sem er náttúrulega slæmt fyrir okkur því við reiknuðum fastlega með honum. Alex Freyr [Hilmarsson] er að koma til baka núna, hann var smávegis veikur í dag þannig að við gátum lítið notað hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert