Sölvi hefur það aldrei gott í skrokknum

Arnar Gunnlaugsson var kátur í leikslok.
Arnar Gunnlaugsson var kátur í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var erfiður leikur,“ var það fyrsta sem Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings í Reykjavík, sagði í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur liðsins á nýliðum Keflavíkur í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. 

„Keflvíkingarnir voru sterkir, með karlmannslið, og létu finna vel fyrir sér. Við byrjuðum leikinn rosalega vel. Fyrstu 30 mínúturnar voru frábærar og við létum boltann ganga vel. Eftir að við skoruðum gáfum við aðeins eftir og seinni hálfleikurinn var erfiður. 

Það lá vel á okkur og þeir pressuðu. Við náðum ekki að leysa fyrstu pressuna nægilega vel fyrir utan síðustu tíu mínúturnar. Doddi [Þórður Ingason] bjargaði okkur vel. Þetta var leikur markvarðanna því það voru fín færi í leiknum. Við höfum oft spilað betur og tapað,“ bætti hann við. 

Sölvi Geir Ottesen skoraði sigurmark Víkings, en hann fann oft og tíðum til í leiknum og lá eftir, eftir nokkur einvígi. 

„Sölvi hefur það aldrei gott í skrokknum. Hann er alltaf að drepast fyrir leiki, meðan á leik stendur og eftir leik. Eins og ég hef oft sagt áður þá er hann stríðsmaður. Sölvi þurfti því að standa sína vakt, bryðja nokkrar töflur, og hann gerði það eins og sannur stríðsmaður,“ sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert