Sölvi tryggði Víkingum sigur á nýliðunum

Frá Víkingsvelli í kvöld.
Frá Víkingsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur Reykjavík fer vel af stað í Pepsi Max-deild karla í fótbolta því liðið vann nauman 1:0-sigur á Keflavík á heimavelli í 1. umferðinni í kvöld. Reynsluboltinn Sölvi Geir Ottesen skoraði sigurmarkið með skalla í fyrri hálfleik. 

Heimamenn í Víkingi voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komust nýliðar Keflavíkur lítt áleiðis í sóknartilraunum sínum. Hinum megin sköpuðu Víkingar sér fín færi og þurfti Sindri Kristinn Ólafsson að verja í tvígang vel frá Kristali Mána Ingasyni í fyrri hálfleiknum.

Hann kom hins vegar engum vörnum við á 18. mínútu þegar Sölvi Geir Ottesen skallaði í netið af stuttu færi eftir fallega fyrirgjöf frá Pablo Punyed. Keflavík lifnaði aðeins við eftir markið, en það reyndi lítið á Þórð Ingason í marki Víkinga fyrir leikhlé og var staðan í hálfleik því 1:0.

Seinni hálfleikurinn var með rólegasta móti framan af en eftir því sem leið á ógnuðu Keflvíkingar meira. Joey Gibbs komst nálægt því að skora rúmum 20 mínútum fyrir leikslok en Þórður varði stórkostlega af stuttu færi. Ástbjörn Þórðarson skallaði í stöng eftir hornið, en Víkingar sluppu.

Erlingur Agnarsson var nálægt því að skora stórkostlegt mark skömmu síðar þegar hann lék á einn varnarmann og sendi boltann innanfótar í áttina að samskeytunum fjær en Sindri Kristinn varði ótrúlega vel í markinu og var staðan því enn 1:0 þegar korter lifði leiks.

Helgi Guðjónsson var nálægt því að bæta við öðru marki Víkings í uppbótartíma en Sindri gerði vel í að verja frá honum úr teignum. Reyndist það síðasta góða færi leiksins og Víkingar fögnuðu sætum sigri. 

Nýliðahrollur

Keflvíkingar þurftu að hrista af sér ákveðinn hroll sem einkenndi liðið í upphafi leiks. Gestirnir komust hvorki lönd né strönd gegn skipulögðu og góðu Víkingsliði framan af leik. Það var því algjörlega verðskuldað þegar reynsluboltinn Sölvi Geir skoraði fyrsta mark leiksins í fyrri hálfleik. 

Við markið losnaði aðeins um Keflvíkinga og þeir náðu að skapa sér eitthvað af þokkalegum færum, en þó engin dauðafæri. 

Markverðirnir stálu senunni

Leikurinn lifnaði við á síðustu 25 mínútunum eða svo og bæði lið fengu góð færi til að skora. Þórður Ingason varði nokkrum sinnum virkilega vel, aðallega frá Joey Gibbs sem kom sér í nokkur færi. Þá var Sindri Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur besti leikmaður gestanna. Hann varði nokkrum sinnum vel og einu sinni stórkostlega frá Erlingi Agnarssyni. 

Víkingar stjórnuðu ferðinni síðasta korterið og voru líklegri til að bæta við en Keflavík að jafna, en fleiri urðu mörkin ekki. Víkingur fagnaði því góðum sigri, en liðið verður að spila betur gegn sterkari andstæðingum.

Vonandi fyrir Keflvíkinga verður hrollurinn farinn í næsta leik, því liðið er með nokkra skemmtilega leikmenn og lið sem gæti strítt mörgum liðum í deild þeirra bestu. Það er afar ólíklegt að þetta Keflavíkurlið endi sigurlaust og með aðeins fjögur stig eins og í síðustu tilraun í efstu deild. 

Víkingur R. 1:0 Keflavík opna loka
90. mín. Logi Tómasson (Víkingur R.) á skot sem er varið Utanfótar og laust, beint á Sindra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert