Það var mjög mikið stress í mönnum

Sindri Kristinn Ólafsson með tvo Víkinga í fanginu í kvöld.
Sindri Kristinn Ólafsson með tvo Víkinga í fanginu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við komum hingað til að sækja þrjú stig, þannig að tilfinningin er slæm. Það er samt gott að fyrsti leikurinn er búinn því það var hrollur í mönnum,“ sagði Sindri Kristinn Ólafsson í samtali við mbl.is. 

Sindri, sem ver mark Keflavíkur, var besti leikmaður síns liðs í kvöld, en það dugði ekki til. Sindri á sjálfur 36 leiki í efstu deild og er reynslumeiri en flestir liðsfélagar hans í efstu deild. 

„Við erum með marga sem voru að spila í efstu deild í fyrsta skipti og allir útlendingarnir nema Nacho voru að spila sinn fyrsta leik í efstu deild. Það var fínt að ná þessum hrolli út því við verðum að mæta sterkari til leiks. Mér fannst við ekki eiga neitt skilið úr þessum leik þótt við höfum fengið færi, því þeir fengu líka sín færi,“ sagði Sindri og hélt áfram.

„Fyrri hálfleikurinn var hræðilegur. Það sást að það var mjög mikið stress í mönnum. Við getum verið fegnir að vera búnir með þennan leik því nú liggur leiðin upp á við. Við fengum dauðafæri en Þórður varði tvisvar eða þrisvar helvíti vel. Joey Gibbs er markavél og hann mun klárlega skora í sumar en hann og aðrir verða að ná hrollinum úr sér.“

Sölvi Geir Ottesen skoraði sigurmark Víkings með skalla af stuttu færi. „Það vantaði hæð í vörnina okkar. Við söknuðum Magnúsar Þórs fyrirliða og Ísaks Óla. Það hefði hjálpað að hafa hæð, sérstaklega í markinu þar sem við vorum ekki með neinn nægilega stóran til að dekka Sölva.“

Sindri stóð í markinu hjá Keflavík í efstu deild 2018, en þá vann liðið ekki einn einasta leik og féll með aðeins fjögur stig. „Mín tilfinning í dag var að gátum unnið þennan leik á meðan árið 2018 fannst okkur fínt að tapa bara 1:0. Við vorum að reyna allan tímann en Víkingarnir voru með meiri reynslu og þeir töfðu nánast allar síðustu 20,“ sagði Sindri Kristinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert