Víkingar hefja sitt 70. tímabil í efstu deild Íslandsmótsins og það áttunda í röð þegar liðið mætir Keflavík í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla, Pepsi Max-deildarinnar, á Víkingsvellinum klukkan 19.15 í kvöld.
Víkingar hafa fimm sinnum orðið Íslandsmeistarar, fyrst 1920 og síðast 1991. Besti árangurinn á þessari öld er 4. sætið árið 2014. Víkingar urðu bikarmeistarar í annað sinn árið 2019 en áður unnu þeir árið 1971 og eru til þessa eina lið utan efstu deildar sem hefur orðið bikarmeistari.
Heimavöllur: Víkingsvöllur – gervigras.
Þjálfari: Arnar Gunnlaugsson.
Aðstoðarþjálfari: Hajrudin Cardaklija og Einar Guðnason.
Fyrirliði: Sölvi Geir Ottesen.
Leikjahæstur í efstu deild: Magnús Þorvaldsson 204.
Markahæstir í efstu deild: Heimir Karlsson 37.
Leikmannahópur Víkings keppnistímabilið 2021:
MARKVERÐIR:
1 Ingvar Jónsson - 1989
16 Þórður Ingason - 1988
99 Uggi Jóhann Auðunsson - 2004
VARNARMENN:
3 Logi Tómasson - 2000
8 Sölvi Geir Ottesen - 1984
12 Halldór Smári Sigurðsson - 1988
17 Atli Barkarson - 2001
21 Kári Árnason - 1982
22 Karl Friðleifur Gunnarsson - 2001
27 Tómas Guðmundsson - 1992
MIÐJUMENN:
7 Erlingur Agnarsson - 1998
10 Pablo Punyed - 1990
11 Adam Ægir Pálsson - 1998
13 Viktor Örlygur Andrason - 2000
19 Axel Freyr Harðarson - 1999
20 Júlíus Magnússon - 1998
25 Bjarki Björn Gunnarsson - 2000
26 Jóhannes Dagur Geirdal - 2004
80 Kristall Máni Ingason - 2002
SÓKNARMENN:
9 Helgi Guðjónsson - 1999
14 Sigurður Steinar Björnsson - 2004
23 Nikolaj Hansen - 1993
28 Halldór Jón Sigurður Þórðarson - 1996
77 Kwame Quee - 1996
Víkingar voru það lið sem olli mestum vonbrigðum í fyrra. Þrír sigrar og tíunda sæti var fjarri þeim markmiðum sem Arnar Gunnlaugsson og hans lærisveinar settu sér fyrir mótið, eftir mikla sigurgöngu á undirbúningstímabilinu og bikarsigur haustið á undan.
Arnar ætlar að halda sínu striki við að móta léttleikandi lið og leggja áherslu á skemmtilegan fótbolta og Víkingar myndu taka stórt skref ef þeim tækist að komast upp fyrir miðja deild í ár, eins og þeim er nú spáð.
Samt hafa Víkingar misst lykilmenn. Óttar Magnús Karlsson, Ágúst Hlynsson og Davíð Örn Atlason eru farnir en þetta voru þrír af bestu mönnum liðsins. Pablo Punyed er kominn frá KR og færir liðinu reynslu á miðjuna og Karl Friðleifur Gunnarsson gæti hleypt lífi í sóknarleikinn en hann var drjúgur með Gróttu í fyrra.
Kári Árnason verður algjör lykilmaður, 38 ára gamall, hvort sem hann verður varnartengiliður eða miðvörður. Sölvi Geir Ottesen er að koma úr meiðslum og Kári reyndar líka svo óvíst er með þá í byrjun móts. Þá meiddist Ingvar Jónsson markvörður í lok mars en Víkingar eru vel settir með Þórð Ingason sem varamarkvörð.
Helgi Guðjónsson gæti sprungið út sem framherji en hann var á skotskónum í vetur. Þá gera Víkingar sér vonir um að fá öflugan danskan sóknarmann, Rasmus Nissen, sem skoraði þrennu fyrir þá í æfingaleik á dögunum.