„Það er alveg eðlilegt að okkur séð spáð öðru sætinu enda höfum við misst góða leikmenn frá síðasta sumri,“ sagði Vilhjálmur Kári Haraldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is á kynningarfundi úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.
Breiðabliki er spáð öðru sæti deildarinnar í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í deildinni en liðið mætir til leiks í sumar sem ríkjandi Íslandsmeistari.
„Tímabilið leggst mjög vel í okkur Blika og við höfum hægt og rólega verið að endurheimta leikmenn, bæði úr meiðslum og úr fæðingarorlofi sem dæmi, þannig að liðið er hægt og rólega að verða klárt fyrir átökin fram undan.
Auðvitað verður þetta bæði erfitt og krefjandi enda mörg góð lið í deildinni í ár. Ég á von á spennandi sumri en ég er mjög bjartsýnn fyrir komandi sumri,“ bætti Vilhjálmur við.
Kórónuveirufaraldurinn setti strik í undirbúning Blika fyrir tímabilið.
„Ég hefði viljað undirbúa hópinn aðeins betur fyrir sumarið og æfinga- og keppnisbannið hafði ákveðin áhrif á okkar undirbúning. Við erum samt sem áður á fínum stað og það verður gott að byrja.
Undirbúningstímabilið er langt og strembið á Íslandi og það verður gott að geta keyrt þetta í gang og þannig slípað þá hluti til sem þarf að slípa til ef svo má segja.“
Vilhjálmur, sem tók við Blikum eftir að Þorsteinn Halldórsson tók við íslenska kvennalandsliðinu, stýrði áður kvennaliði Augnabliks í 1. deildinni en lét af störfum eftir síðasta tímabil til þess að eyða meiri tíma með fjölskyldunni.
„Það fer að sjálfsögðu mikill tími í þetta og það þarf að fórna ýmsu. Ég á mjög skilningsríka eiginkonu og börn sem er frábært því annars væri þetta ekki hægt,“ sagði Vilhjálmur.