„Ég er virkilega sátt við þessi þrjú stig,“ sagði Kristín Dís Árnadóttir, varnarmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 9:0-stórsigur liðsins gegn Fylki í 1. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvelli í kvöld.
„Við spiluðum okkar bolta og gerðum okkar inni á vellinum. Það var smá stress í okkur í byrjun enda langt síðan við spiluðum síðast alvörukeppnisleik. Eftir að við skoruðum fyrsta markið fór okkur að líða mun betur og spilamennskan var eftir því.
Við misstum nokkra stóra leikmenn en það kemur alltaf maður í manns stað. Þeir leikmenn sem fengu tækifæri í kvöld nýttu það mjög vel. Við erum með stóran hóp og það eru allir leikmenn tilbúnir að koma inn og hjálpa liðinu,“ sagði Kristín.
Breiðablik er ríkjandi Íslandsmeistari en liðinu er spáð öðru sæti deildarinnar í ár í spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna liða deildarinnar.
„Við förum í alla leiki til þess að vinna þá. Breiðablik er stór klúbbur með stór markmið en á sama tíma er engin pressa á okkur. Við þurfum að gera okkar og titillinn er ekki eitthvað sem við erum að hugsa um á hverjum degi.
Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá átti ég ekki von á svona stórum sigri í dag en á sama tíma og við áttum góðan dag þá áttu þær vondan dag.“
Árbæingar vildu fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik þegar Hulda Hrund Arnarsdóttir fór niður í teignum eftir viðskipti sín við Kristínu.
„Ég þekki Huldu vel og þetta var bara dýfa. Við hlógum að þessu eftir á og þetta var aldrei víti,“ bætti Kristín við í léttum tón í samtali við mbl.is.