Akureyringarnir í Þór/KA hófu Íslandsmót kvenna í knattspyrnu eins og best verður á kosið í kvöld og sigruðu ÍBV 2:1 í fyrstu umferð Pepsi Max-deildar kvenna á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.
Delaney Baie Pridham skoraði fyrsta mark deildarinnar í ár þegar hún kom ÍBV yfir með skallamarki á 12. mínútu eftir að Kristjana Sigurz átti góða fyrirgjöf frá hægri.
Hulda Ósk Jónsdóttir jafnaði metin fyrir Þór/KA á 66. mínútu þegar hún skaut nánast frá endalínu en boltinn skrúfaðist í markhornið fjær, 1:1.
Sigurmarkið skoraði síðan Karen María Sigurgeirsdóttir á 81. mínútu þegar hún stal boltanum af leikmanni ÍBV og lagði hann snyrtilega framhjá Auði Scheving í Eyjamarkinu.