Fred Saraiva skoraði tvívegis fyrir Fram þegar liðið fékk Víking frá Ólafsvík í heimsókn í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, á Framvöll í 1. umferð deildarinnar í kvöld en þá fóru fram tveir fyrstu leikir tímabilsins í deildinni.
Framarar fóru langleiðina með að vinna leikinn á fyrstu fimm mínútum leiksins en Albert Hafsteinsson kom þeim yfir á 1. mínútu með marki úr vítaspyrnu.
Tryggvi Snær Geirsson bætti við öðru marki Framara á 4. mínútu áður en Fred bætti við þriðja markinu, mínútu síðar.
Fred var svo aftur á ferðinni á 51. mínútu áður en Kyle McLagan varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 60. mínútu.
Harley Willard klóraði í bakkann fyrir Ólsara með marki úr vítaspyrnu á 81. mínútu en lengra komust þeir ekki og lokatölur því 4:2.
Fjölnir heimsótti Þrótt úr Reykjavík í Laugardalinn og fór þaðan með þrjú stig.
Samuel Ford kom Þrótturum yfir í upphafi síðari hálfleiks en Guðmundur Karl Guðmundsson jafnaði metin fyrir Fjölni níu mínútum síðar.
Sigurpáll Melberg Pálsson og Alexander Freyr Sindrason skoruðu fyrir Fjölni á 68. mínútu og þeirri 81. og Fjölnismenn fögnuðu 3:1-sigri. Þróttarar misstu Hrein Inga Örnólfsson af velli með rautt spjald undir lokin.