„Það er alltaf gaman þegar stór klúbbur eins og Valur sýnir manni áhuga og vill semja við mann,“ sagði knattspyrnumaðurinn Guðmundur Andri Tryggvason, nýjasti leikmaður Vals, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Guðmundur Andri, sem er jafnan kallaður Andri, er 21 árs gamall en hann á að baki 34 leiki í efstu deild hér á landi þar sem hann hefur skorað átta mörk.
Þá á hann að baki 29 leiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hann hefur skorað tvö mörk.
„Sú staðreynd að tímabilið sé nýhafið þegar þeir ákveða að reyna að fá mig ítrekar bara hversu mikið þeir vildu fá mig sem er virkilega jákvætt. Það var lítil pressa á mér síðast þegar ég kom til Íslands en pressan er meiri núna. Að sama skapi líður mér ágætlega undir pressu og ég hef tæklað hana ágætlega hingað til.
Það leggst mjög vel í mig að spila á Hlíðarenda enda stór klúbbur sem ætlar sér stóra hluti. Ég er búinn að vera frá síðastliðið ár vegna meiðsla en samt vill einn stærsti klúbbur landsins semja við mig sem er virkilega uppörvandi,“ sagði Andri.
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag