Bara tveir leikir af 22 búnir

Höskuldur Gunnlaugsson heilsar Sævari Atla Magnússyni fyrirliða Leiknis fyrir leikinn.
Höskuldur Gunnlaugsson heilsar Sævari Atla Magnússyni fyrirliða Leiknis fyrir leikinn. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, var að vonum svekktur eftir 3:3 jafntefli gegn Leikni frá Reykjavík í annarri umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu í kvöld.

Þó Blikar hafi að vísu bjargað stigi með jöfnunarmarki á lokamínútu leiksins og það eftir að hafa verið 3:1 undir þar áður. Eftir sem áður er Kópavogsliðið aðeins með eitt stig eftir fyrstu tvo leiki sína en liðinu var spáð toppbaráttu fyrir tímabilið.

„Við ætluðum svo sannarlega að gera betur. Úr því sem komið var sýnum við svo sem karakter en við göngum svekktir af velli. Þetta eru vonbrigði,“ sagði Höskuldur ómyrkur í máli í samtali við mbl.is að leik loknum.

„Við eigum að fara betur með færin, sem við fáum svo sannarlega. Svo erum við klaufar að gefa mörk, við komum okkur sjálfir í þessa holu sem við náum svo að grafa okkur upp úr, en þetta var lélegur leikur af okkar hálfu.“

Það er þó ekkert óðagot á Blikum, enda mótið rétt að byrja. „Þetta eru klaufamistök sem við sjálfir erum að bjóða upp á. Við þurfum að skrúfa á þau ekki seinna en núna strax. Það þýðir ekkert að fara í volæði og krísu, það eru bara tveir leikir af 22 búnir. Nú er það bara Keflavík eftir fimm daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert