Sex marka grannaslagur

Hermann Hreiðarsson þjálfar lið Þróttar úr Vogum og gat fagnað …
Hermann Hreiðarsson þjálfar lið Þróttar úr Vogum og gat fagnað stigi í leikslok. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Keppni í 2. deild karla hófst í gærkvöld með bráðfjörugum nágrannaslag á Suðurnesjum þar sem Njarðvík og Þróttur úr Vogum skildu jöfn í sex marka leik.

Njarðvíkingar voru þó yfir nær allan tímann. Kenneth Hogg og Zoran Plazonic komu þeim í 2:0, Ragnar Þór Gunnarsson minnkaði muninn fyrir Þrótt en þegar hinn skoski Hogg skoraði aftur á 78. mínútu, 3:1, virtist sigurinn í höfn.

Þróttarar gáfust hinsvegar ekki upp og á lokakaflanum skoruðu Rubén Lozano og Hubert Rafal Kotus og jöfnuðu metin í 3:3. Nágrannaliðin deildu því stigum en þeim er báðum spáð góðu gengi í deildinni í sumar.

Þriðja Suðurnesjaliðið í deildinni, Reynir úr Sandgerði, sem kom upp úr 3. deildinni, gerði góða ferð í Hafnarfjörð og vann þar óvæntan sigur á Haukum á Ásvöllum, 2:0. Strahinja Pajic og Magnús Þórir Matthíasson skoruðu mörk Sandgerðinga á síðustu 20 mínútunum.

Hinir fjórir leikirnir í fyrstu umferð 2. deildar fara fram í dag og á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert