Stjarnan tilkynnti í gær að félagið hefði samið við knattspyrnukonuna Katrínu Ásbjörnsdóttur um að leika með liðinu í sumar.
Katrín lék með KR í fyrra en hafði gælt við þá tilhugsun að taka sér frí frá boltanum í sumar. Stjarnan hafði sett sig í samband við Katrínu fyrr í vetur í þeirri von að fá hana aftur til félagsins.
„Nei ég hef ekki verið að æfa með liðinu. Ég hafði ætlað mér að taka mér frí frá fótboltanum á þessu keppnistímabili. Stjarnan hafði samband nokkrum sinnum og mér leist vel á það sem þau eru að gera. Hvort sem það er stefnan varðandi liðið, þjálfarinn eða leikmannahópurinn. Ég ákvað bara að slá til og hlakka til að byrja að æfa með þeim. Vonandi get ég hjálpað þeim eitthvað,“ sagði Katrín þegar Morgunblaðið hafði samband við hana í gær.
„Það var annað sem gekk fyrir hjá mér í vetur. Ég var í þungu námi og þurfti að einbeita mér að því. Nú er það búið og þá opnast möguleiki fyrir fótboltann sem er bara gott.“
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag