Skil að Haukur hafi verið pirraður

Sigurður Egill Lárusson skoraði mark Vals.
Sigurður Egill Lárusson skoraði mark Vals. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

„Úr því sem komið var er þetta gott stig á erfiðum útivelli, sérstaklega eftir að hafa misst mann af velli,“ sagði Sigurður Egill Lárusson, markaskorari Vals í 1:1-jafnteflinu gegn FH í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld, í samtali við mbl.is eftir leik. 

Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, fékk beint rautt spjald á 24. mínútu og Ágúst Eðvald Hlynsson kom FH yfir á 38. mínútu. Valsmenn gáfust hins vegar ekki upp og Sigurður jafnaði á 70. mínútu og þar við sat. 

„Eftir þetta rauða spjald dettum við full aftarlega og ætlum að verja markið okkar þangað til í hálfleik. Við tókum góðan fund í hálfleik og Heimir teiknaði upp nýtt leikplan og við fundum auka orku inn í klefa. Seinni hálfleikurinn var svo virkilega góður og við vorum betri aðilinn.

Heimir sagði okkur að vera kalda á boltanum og þora að spila honum. Við gerðum það, fórum mikið upp vængina, fengum fín færi og á endanum datt þetta fyrir okkur,“ sagði Valsarinn. 

Boltinn datt þægilega fyrir Sigurð í markinu, eftir fyrirgjöf frá Andra Adolphssyni og baráttu Johannes Vall við varnarmenn FH. „Mér sýndist Andri spóla sig upp kantinn og gefa frábæra fyrirgjöf og mér sýndist Vall vera straujaður í teignum. Það átti mögulega að vera víti en svo datt boltinn mjög þægilega fyrir mig og ég setti hann í netið.“

Sigurði fannst Jónatan Ingi Jónsson veiða Hauk Pál Sigurðsson í gildru í rauða spjaldinu. „Mér sýndist það. Haukur ætlaði að taka þetta fljótt og Jónatan pikkar boltanum í burtu og þess vegna bombar Haukur í hann. Ég á eftir að sjá þetta betur en ég skil að Haukur hafi verið pirraður,“ sagði Sigurður Egill. 

Haukur Páll Sigurðsson var ósáttur við rauða spjaldið.
Haukur Páll Sigurðsson var ósáttur við rauða spjaldið. mbl.is/Sigurður Ragnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert