Tíu Valsmenn jöfnuðu í Kaplakrika

Sigurður Egill Lárusson skoraði jöfnunarmark Vals og er hér með …
Sigurður Egill Lárusson skoraði jöfnunarmark Vals og er hér með Pétur Viðarsson á hælunum. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Valur og FH skildu jöfn, 1:1, er liðin mættust í stórleik 2. umferðar Pepsi Max-deildar karla í fótbolta í Kaplakrika í kvöld. Valsmenn eru væntanlega töluvert sáttari við stigið, því þeir léku manni færri frá 22. mínútu er Haukur Páll Sigurðsson fékk beint rautt spjald. 

FH var sterkari aðilinn framan af, án þess þó að skapa sér mikið af færum. Stærsta atvik fyrri hálfleiks gerðist á 22. mínútu en þá fékk Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, beint rautt spjald fyrir að sparka í Jónatan Inga Jónsson þegar boltinn var hvergi nærri.

FH-ingar styrktust við markið og sóttu hart að Völsurum sem voru mjög aftarlega á vellinum. Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 38. mínútu. Bakvörðurinn Hörður Ingi Gunnarsson sótti þá að marki Vals og þrumaði boltanum í Ágúst Eðvald Hlynsson og í netið. Hannes Þór Halldórsson í marki Vals var lagður af stað í annað hornið og boltinn fór í hitt.

Haukur Páll Sigurðsson var ósáttur við rauða spjaldið.
Haukur Páll Sigurðsson var ósáttur við rauða spjaldið. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

FH hélt áfram að sækja eftir markið, en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik. Gunnar Nielsen hafði lítið að gera í marki FH fyrir leikhlé.

Tíu Valsmenn neituðu að gefast upp og pressuðu nokkuð á FH framan af í seinni hálfleik. FH reyndi lítið á Hannes Þór í marki Vals, þrátt fyrir liðsmuninn. Valsmenn skoruðu að lokum jöfnunarmark á 70. mínútu. Varamaðurinn Andri Adolphsson slapp þá upp hægri kantinn, átti fyrirgjöf og eftir atgang í teignum barst boltinn á Sigurð Egil Lárusson sem skoraði af öryggi af stuttu færi.

FH sótti miklu meira eftir markið, en illa gekk að reyna á Hannes Þór í marki Vals. Hinum megin náðu Valsmenn lítið að skapa sér og skiptu liðin því með sér stigunum.

Haukur veiddur í gildru 

Haukur Páll Sigurðsson fékk beint rautt spjald á 24. mínútu fyrir að sparka Jónatan Inga Jónsson niður þegar boltinn var hvergi nærri. Jónatan á sína sök í því, þar sem FH-ingurinn potaði boltanum í burtu um leið og Haukur ætlaði að taka aukaspyrnu og Haukur sparkaði í manninn í staðinn fyrir boltann.

Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði mark FH.
Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði mark FH. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Jónatan veiddi Hauk því í gildru, en erfitt var að sjá hvort Haukur hefði getað komið í veg fyrir að sparka FH-inginn unga niður. Fram að rauða spjaldinu höfðu FH-ingar verið sterkari og eftir rauða spjaldið voru þeir með yfirburði og komust verðskuldað yfir þegar Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði með afturendanum eftir skot frá Herði Inga Gunnarssyni. 

Tíu Valsmenn sterkir í seinni

Valsmenn komu sterkir út á völl eftir leikhlé og ætluðu að selja sig dýrt. Það skilaði sér að lokum með jöfnunarmarki á 70. mínútu, en FH-ingar urðu kærulausir. Það má ekki gegn Val, þótt þú sért manni fleiri. 

Valsliðið gerði gríðarlega vel að ná að jafna manni færri á erfiðum útivelli. Fá lið koma á Kaplakrikavöll og ná í stig eftir að hafa fengið rautt spjald snemma leiks og lenda undir. Eftir jöfnunarmarkið spiluðu Valsmenn afar skynsamlega og fengu að lokum stig sem gæti reynst mikilvægt þegar upp er staðið. FH-ingar mega vera hundfúlir þar sem þeir fá varla betra tækifæri til að vinna Íslandsmeistarana. 

Gunnar Nielsen sparkar frá marki FH í kvöld.
Gunnar Nielsen sparkar frá marki FH í kvöld. mbl.is/Sigurður Ragnarsson
FH 1:1 Valur opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert