Vítið breytti miklu

Þorvaldur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar.
Þorvaldur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við byrjuðum leikinn ágætlega gegn sterkum vindinum – það er svo sem ekki oft logn hérna – og komumst í færi og skot, svo mér fannst við hafa stjórn á leiknum og ekki hætta á einu eða neinu en svo fáum við á okkur þetta víti,“ sagði Þorvaldur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar eftir 2:0 tap í Keflavík þegar leikið var í 2. umferð efstu deildar karla í fótbolta.  

„Það breytir miklu, við erum þá meira að elta og Keflvíkingar hlaupa á okkur þegar við missum boltann. Ég varð fyrir meiri vonbrigðum að við skyldum ekki ógna marki þeirra meira í seinni hálfleik, náðum kannski ekki að skapa það sem við vildum gera.“

Sum kunnugt er hætti Rúnar Páll Sigmundsson óvænt sem þjálfari Stjörnunnar og Þorvaldur Örlygsson því einn við stjórnvölinn en Þorvaldur taldi það ekki hafa haft of mikil áhrif í kvöld.  „Ég get ekki svarað því, mér fannst við byrja vel og góður tónn í leikmönnum. Ég sagði fyrir leik að auðvitað væru tilfinningar hjá leikmönnum sem hafa þekkt Rúnar í mörg ár. Hann hefur staðið sig gríðarlega vel og þetta kom öllum á óvart, sérstaklega mér og þetta var ekki það sem ég bjóst við og vildi en staðan er þessi og þegar hún kemur verður að laga sig að því og halda áfram, hvort sem það eru þjálfarar eða leikmenn og leikmenn hafa gert eins vel og þeir geta. Ég starfaði með Rúnari í allan vetur og þekki mannskapinn ágætlega en það breytist margt þegar komið er inn í mót og hvernig menn bregðast við því,“ sagði Þorvaldur. 

Önnur umræða hefur verið í gangi um Sölva Snæ Guðbjargarson, sem hefur lítið fengið að spreyta sig. „Sölvi spilaði í dag og spilaði í síðasta leik. Það hefur verið talað um að samningur hans renni út í haust en við skoðum það eins og með alla aðra leikmenn, við höldum áfram með það. Ég hef ekki fylgst með allri umræðu um hans mál og er ekki að velta því fyrir mér. Það er hins vegar með svona ungan dreng, ég hef meiri áhyggjur ef hann velti sér upp úr þessu en hann hefur staðið sig vel,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert