Þróttur úr Reykjavík og Valur gerðu markalaust jafntefli í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í annarri umferðinni í kvöld.
Eftir rólega byrjun sem einkenndist einna helst af talsverðri stöðubaráttu fékk Þróttur fyrsta færi leiksins á 11. mínútu, og var það sannkallað dauðafæri. Andrea Rut Bjarnadóttir átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri á fjærstöngina þar sem Hildur Egilsdóttir var mætt en skalli hennar af örstuttu færi fór yfir markið.
Mínútu síðar setti Shaelan Murison boltann í netið með því að vippa yfir Söndru Sigurðardóttur en aðstoðardómarinn flaggaði að boltinn hafi verið farinn aftur fyrir endalínu áður en hún skoraði.
Eftir stundarfjórðungs leik fóru gestirnir í Val að minna á sig. Þá átti Mist Edvardsdóttir góðan skalla eftir hornspyrnu frá hægri en Íris Dögg Gunnarsdóttir í marki Þróttar varði vel í þverslánna og út.
Örskömmu síðar fékk Anna Rakel Pétursdóttir boltann við markteig eftir flotta fyrirgjöf Mary Alice Vignola frá vinstri en setti boltann yfir.
Á 21. mínútu geystist Þróttur í skyndisókn, Hildur Egilsdóttir gaf fyrir frá vinstri með jörðinni, boltinn rúllaði þar til Katherine Cousins sem skaut rétt framhjá markinu úr dauðafæri.
Eftir það tóku Valskonur völdin og virtust sífellt vera að færast nær því að ná forystunni. Elín Metta Jensen fékk nokkur góð færi en brást bogalistin og Ída Marín Hermannsdóttir komst í gott skotfæri á 34. mínútu en skaut framhjá.
Shaelan Murison og Andrea Rut Bjarnadóttir gerðu sig svo líklegar með skotum fyrir utan teig seint í hálfleiknum en þau fóru bæði framhjá, það síðara af varnarmanni og í horn.
Þrátt fyrir fjörugan fyrri hálfleik var því markalaust þegar flautað var til leikhlés.
Síðari hálfleikurinn var öllu rólegri yfir það heila en Andrea Rut átti góða rispu á 51. mínútu þar sem hún fór framhjá Elísu Viðarsdóttur tók gott skot utarlega úr teignum sem fór rétt framhjá markinu. Minnstu mátti muna að Shaelan hafi náð að setja höfuðið í skotið og breyta um stefnu þess.
Eftir tæplega klukkutíma leik fékk Ída Marín dauðafæri. Ásdís Karen átti þá góða fyrirgjöf frá vinstri þar sem hún fann Ídu Marín fyrir miðjum teignum en skotið yfir markið.
Valskonur voru það sem eftir lifði leiks aðeins líklegri til þess að skora en Þróttarar voru að sama skapi stórhættulegar í skyndisóknum.
Hvorugu liðinu tókst þó að skora og urðu því að sættast á jafnan hlut.
Frábær varnarleikur Þróttar skilaði liðinu sterku stigi. Valur, sem flestir spá Íslandsmeistaratitlinum í ár, fékk vissulega sín færi til þess að skora og nokkur þeirra voru góð en fá þeirra gátu talist til opinna marktækifæra.
Þá gátu Þróttarar sannarlega stolið sigrinum, liðið fékk til þess góð færi og þá sérstaklega í fyrri hálfleik.