„Algjör hvalreki að hafa fengið Emmu“

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfyssinga, á Hliðarlínunni í dag.
Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfyssinga, á Hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfyssinga í Pepsi-Max deild kvenna í knattspyrnu, gat brosað breitt eftir leik Þórs/KA og Selfoss í kvöld. Selfoss vann leikinn 2:0 og tyllti sér á toppinn í deildinni. Liðið er með fullt hús stiga eftir tvær umferðir og markatöluna 5:0. 

Þið eruð með toppsætið, 5:0 í markatölu og búin með tvö lengstu ferðalögin, til Keflavíkur og Akureyrar. Þetta gæti ekki verið betra, svona í upphafi móts. Hvernig líst þér á þetta? 

„Bara vel. Ég er ótrúlega lukkulegur að hafa unnið þessa tvo erfiðu útileiki. Það er líka alltaf gott að halda hreinu. Dugnaðurinn í liðinu er til sóma og þetta mun auka sjálfstraust leikmanna til að spila boltanum betur.“ 

Það er svo loks heimaleikur í næstu umferð. 

„Það er Stjarnan í næsta leik. Það verður enn einn baráttuleikurinn. Það er bara á laugardaginn og stutt í næstu leiki eftir hann. Nú þurfum við að nota æfingarnar vel og endurheimta vel þá daga sem eru fram að næsta leik.“ 

Nú er lið þitt með þrjá öfluga útlendinga. Eru þær allar Bandaríkjamenn? 

„Nei, bara tvær þeirra. Við erum með Brennu Lovera á toppnum. Hún hefur komið vel inn í liðið og er búin að skora þrjú mörk nú þegar. Kaity er svo á miðjunni. Hún er flottur og flinkur leikmaður, öðruvísi týpa en við höfum haft. Hún límir liðið vel saman og á úrslitasendingar. Svo erum við með Ástrala í vörninni. Ég vil meina að það sé algjör hvalreki að hafa fengið Emmu í vörnina. Hún er mjög flottur leikmaður með rétt hugarfar og hugsar vel um sig. Hún kemur líka með mikið inn í félagið og er góð fyrirmynd. Hún er landsliðsmaður. Ástralía er að berjast við það að komast inn á Ólympíuleikana. Við reynum að gera allt til þess að hún verði í standi til þess að fara þangað ef kallið kemur. Við munum aldrei standa í vegi fyrir því“ sagði Alfreð að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert