Bandaríska knattspyrnukonan Taylor Ziemer er gengin til liðs við Íslandsmeistara Breiðabliks. Hún kemur úr bandaríska háskólaboltanum en lék þar á undan í hollensku úrvalsdeildinni.
Ziemer, sem er 22 ára gamall miðjumaður, lék síðast með Texas A&M-háskólanum og hefur einnig leikið með Virginíuháskóla.
Tímabilið 2018/2019 lék hún með ADO Den Haag í hollensku úrvalsdeildinni, þar sem hún spilaði 24 leiki og skoraði fimm mörk þegar liðið endaði í fjórða sæti deildarinnar.
Ziemer fær leikheimild á morgun og getur því spilað með Breiðablik á laugardaginn kemur þegar liðið tekur á móti Þór/KA í þriðju umferð úrvalsdeildar kvenna, Pepsi Max-deildinni.