Selfoss á toppinn með fullt hús stiga

Selfyssingar fagna marki Brennu Lovera í fyrri hálfleik.
Selfyssingar fagna marki Brennu Lovera í fyrri hálfleik. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þór/KA og Selfoss léku í 2. umferð Pepsi-Max deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld í Boganum á Akureyri. Selfoss var heilt yfir betra liðið í leiknum og vann hann 2:0. Sunnlendingar eru því á toppnum í deildinni með fullt hús og markatöluna 5:0. 

Leikurinn fór rólega af stað og liðin léku fremur varfærnislega. Fátt var því um færi lengi vel. Þór/KA byrjaði þó leikinn öllu betur en gestirnir. Selfoss var samt á undan að skora og var markið einkar glæsilegt. Brenna Lovera lék inn í markteig hægra megin, alla leið upp að endamörkum. Þar tók hún heilan snúning og hamraði svo boltann í markið með vinstri. Fleira markvert gerðist svo ekki fram að hálfleik og Selfoss leiddi því 1:0 þegar liðin gengu til búningsklefa.  

Seinni hálfleikur einkenndist mest af baráttu og voru Selfyssingar alltaf líklegri til að skora. Þeir bættu við marki á 66. mínútu þegar Caity Heap lét vaða af löngu færi. Boltinn söng í netinu og eftir markið hafði Selfoss góð tök á leiknum án þess að ógna mikið. Karen María Sigurgeirsdóttir átti tvö góð skot á mark Selfoss. Fyrra skotið fór rétt framhjá en Guðný Geirsdóttir sýndi klassa markvörslu þegar hún greip boltann eftir seinna skotið. 

Selfoss hefur nú spilað tvo útileiki og klárað sín lengstu ferðalög. Uppskeran er sex stig og toppsætið í deildinni. Varnarlína liðsins er traust með snögga og sterka Emmu Checker eins og herforingja í hjarta hennar. Fyrir aftan ana var Guðný Geirsdóttir örugg á öllum boltum. 

Þór/KA átti í brasi með að skapa sér færi og álitlegar sóknir en barðist vel um allan völl. Lítið sást til Colleen Kennedy í liði Þórs/KA en hún sýndi lipra takta í þau fáu skipti sem hún komst í boltann. Miranda Smith kom svo inn á í stöðunni 2:0 og sást lítið. 

Þór/KA 0:2 Selfoss opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert