Tvíburabræðurnir Nökkvi Þeyr og Þorri Mar Þórissynir voru sprækir í leik KA gegn Leikni á Dalvík í dag.
Þeir eru Dalvíkingar í húð og hár og var því skemmtilegt fyrir þá að spila í sínum heimabæ. Þeir voru dálítið lengi í sturtu en komu svo í skemmtilegt spjall.
Sælir piltar. Þið eruð heimamenn og nánast uppaldir hér á vellinum. Datt ykkur einhvern tímann í hug að þið ættuð eftir að spila leik í efstu deild í ykkar heimabæ?
Nökkvi svarar þessari spurningu. „Nei eiginlega ekki en svo síðustu daga þá hefur umræðan um standið á Akureyrarvelli verið áberandi og þá fór maður að sjá að þetta gæti alveg gerst. Ég er bara mjög glaður að hafa fengið að spila hér. Þetta var bæði gaman og einstakt fyrir okkur bræðurna.“
Þetta er líklega fyrsti leikur ykkar saman í byrjunarliði frá því þið spiluðuð með Dalvík/Reyni hérna um árið. Var þá ekki tilvalið að spila hann hér.
„Þetta er bara rétt hjá þér,“ segir Þorri og Nökkvi bætir svo við: „Þ.e. í opinberum leik. Við vorum að byrja báðir í einhverjum leikjum í Kjarnafæðismótinu og Lengjubikarnum í vetur.“ „Það er búið að vera eitthvað um meiðsli,“ segir Þorri og er þá að tala um sjálfan sig. „En vonandi heldur þetta bara áfram,“ bætir hann við.
Já, svo ert þú bara farinn að spila í bakverði. Er það ekki eitthvað nýtt fyrir þig Þorri?
„Ég var bakvörður upprunalega þegar ég var úti og það gekk bara vel. Svo var ég á kantinum hérna heima en er kominn aftur í bakvörðinn. Þetta er ekki alveg nýtt fyrir mér. Mér finnst þetta ganga fínt.“
Já þú mættir grimmur til leiks og það hjálpaði ykkur kannski að vera saman á hægri kantinum og með stúkuna við hliðina á ykkur og allt ykkar heimafólk.
Þorri svarar. „Þetta var mjög gaman og gerði mann enn æstari í að vinna þennan leik,“ og Nökkvi bætir við: „Líka bara að vera með bróður sínum á kantinum, á heimavelli hér á Dalvík, með heimafólkið og svo að vinna leikinn. Það hefði verið skemmtilegra að skora en ég kvarta ekki en það hefði verið punkturinn yfir i-ið.“ „Þetta var mjög fínt“ segir Þorri. „Það var stundum eins og Nökkvi væri búinn að lesa hugsanir mínar og það var þægilegt. Nökkvi tekur undir þetta en bætir svo við: „Það var æðislegt að sjá allt heimafólkið. Það var mikil spenna í bænum fyrir leikinn og búið að auglýsa hann mikið.“
„Þetta var bara geggjað og liðið að standa sig mjög vel. Leiknir er með sterkt lið og vill vera með boltann og þorir að spila honum. Við vorum búnir að sjá kafla úr leikjunum þeirra og þeir eru engin lömb að leika sér við,“ sagði Nökkvi.
Talandi um að þora að spila boltanum. KA-liðið virkar þannig og spilamennskan er traustvekjandi.
„Mér fannst þetta byrja dálítið stirt í dag en svo bara unnum við okkur inn í leikinn hægt og rólega. Fyrsta markið gerði mikið fyrir okkur. Mér finnst Þorri búinn að standa sig ógeðslega vel eftir að hann kom inn, búinn að vera frábær,“ sagði Nökkvi. Þorri lætur sem hann heyri þetta ekki og segir: „Við erum alveg að sýna það að við þorum að halda boltanum og spila út úr vörninni. Við erum rólegir og getum haldið bolta, einnig spilað hratt fram völlinn. Við erum að sýna að við ætlum okkur eitthvað í þessari deild.“
Svo virðist ekki að sjá á liðinu þótt nokkrir lykilmenn detti út á milli leikja. Það koma bara aðrir og fylla í skörðin.
„Við missum sex leikmenn fyrir þennan leik og það var ekki að sjá á spilamennskunni. Við unnum KR í síðasta leik og það gerist oft eftir góða og kannski óvænta sigra að lið detti í einhvern töffaragír og ætli ekki að hafa neitt fyrir næsta sigri, kannski gegn lægra skrifuðu liði. Það var því mikilvægt að halda takti og halda áfram í stað þess að detta niður í eitthvert rugl,“ sagði Nökkvi að lokum.