Afturelding hefur fengið til liðs við sig reyndan spænskan knattspyrnumann, Albert Serrán, sem hefur komið víða við á ferlinum.
Serrán er 36 ára gamall og lék síðast með spænska D-deildarliðinu Montanesa en var í tvö tímabil þar á undan með Bengaluru í indversku úrvalsdeildinni. Hann er annars uppalinn hjá Espanyol í Barcelona og lék aðallega með varaliði félagsins en var eitt tímabil með aðalliðinu og náði að spila þrjá leiki í efstu deild.
Hann fór þaðan til velska liðsins Swansea og lék með því þrjú tímabil í ensku B-deildinni, síðast 2010-11 þegar liðið vann sig upp í úrvalsdeildina, en þá var hann leystur undan samningi.
Serrán lék síðan á Kýpur í fimm ár, með AEK Larnaca, Anorthosis og Doxa, og var síðan um skeið í röðum Kukësi í Albaníu en fór þaðan til Indlands.
Afturelding hefur leikið einn leik í 1. deild karla, Lengjudeildinni, á þessu tímabili en liðið gerði jafntefli 1:1 við nýliðana í Kórdrengjum.