„Maður er nú betri en hann“

Ægir Jarl Jónasson og Arnór Borg Guðjohnsen eigast hér við …
Ægir Jarl Jónasson og Arnór Borg Guðjohnsen eigast hér við í leik kvöldsins, sem lyktaði með jafntefli. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Miðað við hvernig leikurinn spilaðist fannst mér við eiga meira skilið en bara eitt stig í þessum leik,“ segir Dagur Dan Þórhallsson, kantmaður Fylkis, um 1:1 jafnteflið við KR, en liðin mættust á Fylkisvelli í kvöld í þriðju umferð Pepsi Max-deildar karla. Dagur segir hungrið hafa verið mikið hjá Fylkisliðinu, og að þeir hefðu viljað sækja stigin þrjú sem voru í boði. 

Dagur átti mjög góðan leik á vinstri kanti Fylkismanna í kvöld. Hann segir að eftir því sem leið á leikinn hafi Fylkismenn sótt í sig veðrið. En hvað olli því að Fylkir náði þarna yfirhöndinni? „Við erum náttúrulega með unga leikmenn sem voru hungraðir í sigur,“ segir Dagur en tekur fram að KR-ingar séu með fínt lið. „En við vorum hungraðri í dag og vildum líklega stigin ögn meira, sérstaklega síðustu tíu til tuttugu mínúturnar.“

Liðsfélagi Dags, Arnór Borg Guðjohnsen, fékk kjörið tækifæri til þess að koma Fylki yfir á nýjan leik í upphafi seinni hálfleiks, en Beitir Ólafsson, markvörður KR, varði fína vítaspyrnu hans. Dagur segist þurfa að sjá atvikið aftur í sjónvarpi. „Mér fannst þetta réttur dómur þá,“ segir Dagur Dan og bætir við að sér hafi þótt spyrna Arnórs góð. „En Beitir á þarna frábæra markvörslu í alla staði og pínu pirrandi að það hafi þurft að gerast á móti okkur,“ segir Dagur.

Líkt og fyrr sagði átti Dagur mjög góðan leik í kvöld, en hann á ekki langt að sækja hæfileikana, þar sem faðir hans er Þórhallur Dan Jóhannsson, sem var á sínum tíma einn af öflugri leikmönnum sem Árbæjarliðið hefur alið. Degi hefur verið líkt við föður sinn á velli, og segist hann ekki finna fyrir þrýstingi vegna fjölskyldutengslanna. „Nei, nei, þetta er bara eins og það er. Ég hef alltaf borið mig saman við pabba, en maður er nú betri en hann,“ segir Dagur í glettnistón. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert