Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknismanna í Pepsi-Max deild karla í fótbolta, fór með sitt lið til Dalvíkur í dag til að etja kappi við KA.
Varð úr hálfgerð fýluferð þar sem KA vann 3:0 og það eina sem Leiknismenn uppskáru var eldrautt spjald fyrir ljótt brot leikmanns, sem ekki mun kæta aðdáendur knattspyrnunnar.
Sigurður var fenginn í stutt viðtal að leik loknum.
Þið fenguð að taka þátt í þessu ævintýri hérna á Dalvík. Greifavöllurinn á Akureyri er ekki klár. Hefðuð þið frekar viljað spila þar?
„Við vorum virkilega ánægðir með að koma hingað og spila á gervigrasinu. Flestir myndu velja það að vera hér á þessum árstíma.
Þið voruð búnir að gera tvö jafntefli fyrir leik kvöldsins og líklega bara svekktir með þá niðurstöðu. Í dag fáið þið bara löðrung frá KA.
„Mér fannst við einmitt mjög sterkir í síðasta leik svo að niðurstaða þessa leiks er smá högg fyrir okkur. Við komum bara illa stemmdir inn í fyrri hálfleikinn og hugarfarið var ekki nógu gott. Tempóið var ekki nógu hátt og leikplanið bara brást.“
Þið gerið ákveðnar hrókeringar í hálfleik og komið mjög sterkir inn í hann og hreinlega einokið boltann þar til KA fær vægast sagt mjög þægilegt víti eftir bægslagang ykkar í teignum. Það sló ykkur aðeins niður á jörðina.
„Við fórum vel yfir fyrri hálfleikinn okkar inni í klefa og ákváðum að gera taktískar breytingar. Það fannst mér virka virkilega vel og leikmenn brugðust vel við hálfleiksræðunni. Mér fannst við hreinlega vera líklegir til að skora einhver mörk á þessum tímapunkti. Svo kemur þetta víti og í kjölfarið dauðafæri hjá okkur. Eftir að það fór forgörðum þá fannst mér leikurinn smám saman fjara út hjá okkur og þriðja markið negldi þetta fyrir KA.“
En standið á liðinu og næstu skref.
„Það er bara fínt. Menn eru að koma til baka eftir smá hnjask. Ég vona bara að við náum betri endurheimt frá þessum leik en frá þeim síðasta. Við eigum að spila við Fylki á heimavelli í næstu umferð. Við verðum að sleikja sárin og tjasla okkur saman fyrir þann leik.“
Nú eru ykkar helstu nágrannar og erkifjendur deildum fyrir neðan ykkur. Er Fylkir þá ekki aðalkeppinauturinn?
„Þetta er nágrannaslagur og við erum t.a.m. með sameiginlegt lið í 3. flokki kvenna. Þetta er því frekar vinaklúbbur en vissulega verður hörð barátta,“ sagði Sigurður að lokum.