Þurfum að mæta betur til leiks

Pálmi Rafn Pálmason segir KR-inga þurfa að mæta betur til …
Pálmi Rafn Pálmason segir KR-inga þurfa að mæta betur til leiks en í síðustu tveimur leikjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta voru klárlega vonbrigði,“ segir Pálmi Rafn Pálmason, miðjumaðurinn sterki hjá KR, um frammistöðu liðsins í kvöld gegn Fylki á útivelli í þriðju umferð Pepsi Max-deildar karla. Liðin skildu þar jöfn, 1:1, en annan leikinn í röð hófu KR-ingar leik á því að fá á sig mark.

„Það er pirrandi að í síðustu tveimur leikjum skulum við hafa þurft að lenda undir til þess að byrja leikina,“ segir Pálmi Rafn. KR-ingar náðu hins vegar að jafna fljótt, en eftir það var leikurinn opinn, án þess að mörg færi litu dagsins ljós.

„Þetta var hálfgerður borðtennis, og frekar opið, sérstaklega í lokin.“ segir Pálmi Rafn, sem þakkar liðsfélaga sínum í markinu, Beiti Ólafssyni, fyrir frábæra markvörslu þegar Fylkismenn fengu víti strax í upphafi seinni hálfleiks. „Beitir er frábær markmaður og ver þetta ótrúlega vel. Það eru ekki margir markmenn sem hefðu varið þetta,“ segir Pálmi Rafn, en hann taldi vítadóminn afskaplega harðan. „Þetta leit ekki út fyrir að vera víti, en kannski var þetta hárréttur dómur.“

„Þannig að við getum kannski ekki verið ósáttir við að sigra ekki, en við getum verið ósáttir við að spila ekki betur stærri kafla af leiknum,“ segir Pálmi Rafn. „Við vorum góðir í hluta af leiknum, en ekki nógu mikið.“

Pálmi Rafn segir Fylkismenn hafa náð að setja KR-inga undir nokkra pressu síðustu mínúturnar og þá hafi KR-liðið fallið of mikið til baka. Hann segir að KR-ingar hefðu að ósekju mátt ýta pressunni betur af sér.

En hvað þarf að laga í leik Vesturbæinga? „Við þurfum að fá sama kraft og í fyrstu umferðinni, við þurfum að mæta í leikina þegar þeir byrja, ekki þegar við erum búnir að fá á okkur mörk. Ef við gerum það, þá held ég að við séum í ágætismálum,“ segir Pálmi Rafn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert