Úr ensku úrvalsdeildinni til Selfoss

Benedicte Håland á æfingu með Bristol City í vor.
Benedicte Håland á æfingu með Bristol City í vor. Ljósmynd/Bristol City

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við norska markvörðinn Benedicte Håland um að leika með kvennaliði félagsins í sumar.

Håland er 23 ára gömul og kemur til Selfoss frá Bristol City, sem lék í nýafstaðinni ensku úrvalsdeildinni, þar sem það varð hlutskipti félagsins að falla niður í B-deild.

Áður lék hún með liðum Sandviken og Arna-Bjørnar í norsku úrvalsdeildinni. Hún á að baki átta landsleiki með yngri landsliðum Noregs.

„Við erum að fá fínasta markmann þarna í samkeppni við Guðnýju [Geirsdóttur] sem er búin að standa sig gríðarlega vel í fyrstu leikjunum. Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa samkeppni um markmannsstöðuna eins og aðrar stöður.

Við erum spennt að fá Benedicte til okkar, hún er hávaxin og sterk með góða reynslu og kemur til með að efla hópinn okkar enn frekar,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss í tilkynningu frá knattspyrnudeildinni.

Í vetur kom þýski markvörðurinn Anke Preuß til liðs við Selfoss en hún meiddist illa á hendi í vor og verður ekki leikfær í sumar.

Guðný hefur því varið mark Selfoss í fyrstu tveimur leikjunum í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, eftir að hafa komið á láni frá ÍBV út leiktíðina. Hefur hún haldið hreinu í báðum leikjum Selfoss til þessa, 3:0 sigri gegn Keflavík og 2:0 sigri gegn Þór/KA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert