Afturelding í efsta sætinu – tvö rauð í Fossvogi

Barátta í leik Víkings og Aftureldingar í gærkvöld.
Barátta í leik Víkings og Aftureldingar í gærkvöld. Ljósmynd/Óðinn Þórarinsson

Afturelding er í efsta sæti 1. deildar kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildarinnar, eftir að hafa sigrað Víkinga á útivelli í Fossvoginum í gærkvöld, 3:1.

Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir kom Aftureldingu í 2:0 með tveimur mörkum sitthvorumegin við hlé. Kristín Erna Sigurlásdóttir minnkaði muninn fyrir Víking en Taylor Lynne Bennett gulltryggði sigurinn undir lokin.

Í uppbótartíma gekk mikið á og bæði Brynhildur Vala Björnsdóttir úr Víkingi og Bennett úr Aftureldingu fengu að líta rauða spjaldið.

ÍA vann dramatískan sigur á Augnabliki á Akranesi, 2:1, en þar var Kópavogsliðið yfir stóran hluta leiksins eftir að Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði strax á fjórðu mínútu. Erla Karitas Jóhannesdóttir jafnaði fyrir ÍA þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka og í uppbótartímanum skoraði Lilja Björg Ólafsdóttir, nýkomin inn á sem varamaður, sigurmark Skagakvenna.

FH sigraði Gróttu í Kaplakrika, 3:1, og fékk því sín fyrstu stig eftir að hafa tapað fyrir Haukum í fyrstu umferðinni. Selma Dögg Björgvinsdóttir, Brittney Lawrence og Elísa Lana Sigurjónsdóttir komu FH í 3:0 en Eydís Lilja Eysteinsdóttir minnkaði muninn fyrir Gróttu.

Annarri umferð lýkur í dag en HK mætir KR í Kórnum klukkan 14 og Grindavík tekur á móti Haukum klukkan 19.15.

Afturelding er með fjögur stig á toppnum en Haukar geta náð efsta sætinu með sigri í kvöld. KR er nú eina liðið sem er ekki komið með stig í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert