Ekki með kveikt á öllum perum

Eysteinn Húni Hauksson þjálfari Keflavíkur.
Eysteinn Húni Hauksson þjálfari Keflavíkur. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Mín fyrstu viðbrögð eru að eftir rúmar sextíu mínútur var enginn að fara sjá fyrir sér að leikurinn endaði í 4:0 og þessi kafli sem Blikar skora þrjú mörk á stuttum tíma gerir út um leikinn,“ sagði Eysteinn Húni Hauksson, þjálfari nýliða Keflavíkur, eftir sárt 4:0 tap fyrir Breiðabliki í Kópavoginum þegar leikið var í 3. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu, Pepsi-Max deildarinnar.

Óhætt er að taka undir að stíflan brysti svona rækilega og þjálfari segir eitthvað hafa skort á einbeitingu. „Fram að því finnst mér við alveg eins líklegir og þeir að skora annað markið í leiknum. Ætli það sé ekki bara sem gerist. Mér sýnist við hafa misst einbeitinguna og missum þá fram úr okkur þegar við erum ekki með kveikt á öllum perum. Þetta kom eins og sprengja framan í okkur og ekki hægt að útskýra öðruvísi en menn hafi hugann við að vinna vinnuna sína.“

Keflavík tapaði í fyrstu umferð fyrir Víkingum en unnu síðan Stjörnuna, svolítil sveifla og það segir þjálfari ekki gott. „Við erum að móta liðið okkar í þessari deild og þá er aðalatriði stöðugleiki. Uppskeran er þrjú stig eftir þrjá leiki svo að meðaltalið er stig í leik og við þurfum meira en það svo við verðum nú að vera pottþéttir á því að það sem við erum ekki að gera vel verðum við læra af og sýna meiri stöðugleika,“ bætti þjálfarinn við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert