KR vann öruggan 4:1 útisigur á HK í annarri umferð B-deild kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildinni, í Kórnum í dag.
Svana Rún Hermannsdóttir kom gestunum í KR á bragðið strax á 10. mínútu og Guðmunda Brynja Óladóttir tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir leikhlé.
Eftir tæplega klukkutíma leik var staðan orðin 3:0, þegar Kathleen Pingel skoraði. Margrét Edda Lian Bjarnadóttir skoraði svo fjórða markið 10 mínútum síðar, á 69. mínútu.
Á 84. mínútu tók Ísold Kristín Rúnarsdóttir hornspyrnu sem endaði í netinu og þar með náði HK inn sárabótarmarki.
Þar við sat, 4:1 sigur staðreynd og KR er þar með búið að ná í sín fyrstu stig og fyrsta sigur á tímabilinu eftir að hafa tapað 1:2 gegn Augnabliki í fyrstu umferð deildarinnar í síðustu viku.
HK er áfram með 1 stig eftir að hafa gert 3:3 jafntefli gegn Víkingi úr Reykjavík í fyrstu umferðinni.
Markaskorarar úr leiknum eru fengnir af Fótbolta.net.