„Örugglega skrítnasti knattspyrnuleikur sem ég hef spilað“

Þórður Þorsteinn Þórðarson með boltann í leiknum í kvöld.
Þórður Þorsteinn Þórðarson með boltann í leiknum í kvöld. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Þórður Þorsteinn Þórðarson, hægri bakvörður ÍA, sagði leik kvöldsins í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu gegn FH hafa verið einn þann skrítnasta sem hann hefði nokkru sinni spilað.

Hér um bil allt sem gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis eftir álitlega byrjun Skagamanna þegar Gísli Laxdal Unnarsson kom þeim yfir á sjöttu mínútu. Eftir hálftíma leik fór svo að síga á ógæfuhliðina þegar Hákon Ingi Jónsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

„Í fyrri hálfleik vorum við allt í lagi. Skorum flott mark, erum að hlaupa, erum að berjast. Við missum mann út af eftir klaufalegt seinna gula spjald. 1:1 í hálfleik, það er allt í lagi. Svo fáum við á okkur klaufalegt annað mark þar sem við eigum að gera betur frá A til Ö,“ sagði Þórður Þorsteinn í samtali við mbl.is eftir leik, en annað mark FH-inga kom á 82. mínútu.

Skömmu síðar skoraði FH þriðja markið og stuttu eftir það þurfti Árni Snær Ólafsson að fara meiddur af velli. Þar sem ÍA var búið með allar skiptingar sínar á þessum tímapunkti þurfti Þórður Þorsteinn að bregða sér í markið.

„Þeir skora þriðja markið og svo slítur Árni væntanlega hásinina á sér, ég fer í mark og á að verja þessa aukaspyrnu frá Lennie [Steven Lennons, sem skoraði fjórða mark FH]. Það er óhætt að segja að þetta er örugglega einn skrítnasti knattspyrnuleikur sem ég hef spilað, þar sem uppbótartíminn var 20 mínútur eða eitthvað slíkt, bætti hann við.“

Ástæðan fyrir því var sú að Sindri Snær Magnússon, sem var nýkominn inn á sem varamaður, fór í návígi við Hörð Inga Gunnarsson, braut á honum og slasaðist illa sjálfur. Lá hann óvígur á vellinum í tæpan stundarfjórðung.

„Ég er ekki búinn að heyra hvað þeir segja á sjúkrahúsinu en honum leið eins og rifbeinið væri brotið í tvennt og alltaf þegar hann andaði þá fann hann það stingast inn í sig þannig að það var ekkert þorað að hreyfa hann neitt fyrr en sjúkrabíllinn kom. Hann var mikið verkjaður. Það tók 15 mínútur, það ferli. Svo slítur Árni hásin, það tekur einhverjar fimm mínútur,“ sagði Þórður Þorsteinn.

Bakvörðurinn fékk svo eitt mark til viðbótar á sig og FH vann að lokum 5:1 sigur. Þórður Þorsteinn sagði það þó ekkert þýða að hengja haus. „Það er bara áfram gakk, það þýðir ekkert að liggja í þessu lengi. Það er leikur eftir 3-4 daga og það er bara næsta verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert