Stíflan hrundi á þremur mínútum

Davíð Ingvarsson úr Breiðabliki í baráttu við Kian Paul Williams …
Davíð Ingvarsson úr Breiðabliki í baráttu við Kian Paul Williams hjá Keflavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tiltölulega jafnt var með liðum Breiðabliks og Keflavíkur í Kópavoginum í kvöld þegar 3. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi Max-deildarinnar, fór fram. Blikar voru þó með marki meira, en á þremur mínútum í síðari hálfleik brast stíflan með látum og þremur mörkum og 4:0 sigur í höfn.

Keflvíkingar byrjuðu með pressu en Blikar stóðu hana af sér, fóru síðan byggja upp sínar sóknir og á 12. mínútu var Viktor Karl Einarsson felldur inni í vítateig, víti dæmt og Thomas Mikkelsen skoraði af öryggi svo Breiðablik var komið í 1:0 forystu. Þótt sóknir Blika væru fleiri áttu þó bæði lið svipað af góðum færum – á 27. mínútu varði markmaður Breiðabliks, Anton Ari Einarsson, glæsilega gott skot Nachos Heras og mínútu síðar hinum megin varði Sindri Kristinn Ólafsson markvörður Keflavíkur lúmskt skot Thomas Mikkelsen. Þrjú spjöld fóru á loft í fyrri hálfleik, tvö af þeim fyrir kvabb. Hvernig menn nenna þessu.

Blikar voru seigari í seinni hálfleik en lítið af færum. Svo  brast stíflan og það algerlega með þremur mörkum á tveimur mínútum. Fyrst Thomas á 67. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Viktor Karls Einarssonar, áður en mínúta var liðin skoraði hann aftur, nú eftir góða sendingu Gísla Eyjólfssonar og þegar klukkan stóð í 70 mínútum kom fjórða markið, Kristinn Steindórsson skoraði af stuttu færi eftir sendingu Thomasar. 

Sigur Blika fleytir þeim langt upp í stigatöfluna, þökk sé mörkunum fjórum og ættu nú að vera komnir á bragðið með sóknir sínar en þriggja manna vörnina þarf að slípa talsvert.  Keflvíkingar voru alveg ágætir, sterkir í vörn og kraftur í sókninni – þetta verður að segjast þrátt fyrir markahrúguna á þremur mínútum. Hins vegar virtust þeir þreytast þegar leið á leikinn.

Breiðablik 4:0 Keflavík opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert