Stórsigur Hafnfirðinga gegn fáliðuðum Skagamönnum

FH-ingarnir Matthías Vilhjálmsson og Jónatan Ingi Jónsson sækja að marki …
FH-ingarnir Matthías Vilhjálmsson og Jónatan Ingi Jónsson sækja að marki ÍA í leiknum í kvöld. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

FH vann 5:1 stórsigur gegn ÍA í þriðju umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld. Skagamenn misstu mann af velli með rautt spjald eftir tæplega hálftíma leik og voru tveimur færri síðustu 10 mínúturnar vegna meiðsla þar sem skiptingarnar voru búnar.

Heimamenn í FH mættu gífurlega ákveðnir til leiks og átti Ágúst Eðvald Hlynsson fyrstu marktilraunina strax á fyrstu mínútu leiksins þegar hann þrumaði boltanum í Alexander Davey úr góðu skotfæri.

Mínútu síðar átti Eggert Gunnþór Jónsson þrumuskalla að marki eftir hornspyrnu Jónatans Inga Jónssonar en Árni Snær Ólafsson varði frábærlega.

Það voru hins vegar gestirnir af Akranesi sem tóku forystuna á sjöttu mínútu leiksins með sinni fyrstu marktilraun. Elias Alexander Tamburini átti þá langa skiptingu yfir á hægri kantinn, Gísli Laxdal Unnarsson tók laglega við boltanum, var skyndilega sloppinn í gegn og kláraði mjög vel í fjærhornið framhjá Gunnari Nielsen, 0:1

Á 17. mínútu komst Ágúst Eðvald Hlynsson í frábært færi eftir laglegan undirbúning Jónatans Inga en hnitmiðað skot hans niður í hornið var glæsilega varið af Árna Snæ og aftur fyrir.

Á 25. mínútu fékk Hákon Ingi Jónsson, framherji ÍA, gult spjald fyrir að hrinda Guðmanni Þórissyni á Gunnar í markinu og valda þar með smávægilegum árekstri.

Aðeins fjórum mínútum síðar var Hákon Ingi búinn að fá sitt annað gula spjald og þar með rautt eftir að hann kom allt of seint í Gunnar sem hreinsaði boltanum út af.

Einum fleiri nýttu FH-ingar sér umsvifalaust liðsmuninn og voru búnir að jafna eftir hálftíma leik. Pétur Viðarsson fékk þá boltann utarlega í vítateignum, tók skotið sem stefndi rétt framhjá en boltinn fór af Óttari Bjarna Guðmundssyni og þaðan í netið, sjálfsmark og staðan orðin 1:1.

Örskömmu síðar komst Þórir Jóhann Helgason nálægt því að koma FH yfir en skot hans eftir laglegan sprett rétt framhjá markinu.

Eftir það náðu FH-ingar ekki að ógna marki Skagamanna að ráði og staðan því 1:1 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn hófst á því að Sindri Snær Magnússon, sem var nýkominn inn á sem varamaður í hálfleik, fór í tæklingu á Hörð Inga Gunnarsson sem endaði með því að Sindri Snær lá sárþjáður eftir.

Virtist hann hafa meiðst illa á baki og þurfti að kalla sjúkrabíl til. Miklar tafir urðu því á leiknum á meðan hlúð var að meiðslum Sindra Snæs og beðið eftir sjúkrabílnum.

Tæpum stundarfjórðungi síðar gat leikurinn hafist á ný og hófst þá gífurlega pressa FH-inga.

Matthías Vilhjálmsson fór þar fremstur í flokki og átti hvern skallann á fætur öðrum eftir góðar fyrirgjafir en alltaf sá Árni Snær við honum.

Á 82. mínútu brast stíflan loks. Hörður Ingi gaf þá fyrir frá hægri, Hjörtur Logi Valgarðsson framlengdi sendinguna örlítið og Matthías kom á ferðinni og skallaði boltann af krafti lágt í fjærhornið, 2:1.

Skömmu síðar, á 88. mínútu, kom þriðja markið. FH geystist þá í skyndisókn, Jónatan Ingi fór laglega með knöttinn, lagði boltann til hliðar og Ágúst Eðvald tók skotið, sem fór af varnarmanni og í netið, 3:1.

Skagamenn þurftu að leika síðustu mínúturnar tveimur færri eftir að Árni Snær þurfti að fara meiddur af velli og gestirnir búnir með skiptingar sínar. Bakvörðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson fór í markið það sem eftir lifði leiks og fékk á sig tvö mörk.

FH-ingar voru ekki hættir. Á 12. mínútu uppbótartíma skoraði Steven Lennon glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu, 4:1

Fimmta og síðasta mark FH-inga skoraði svo varamaðurinn Vuk Oskar Dimitrijevic á 15. mínútu uppbótartímans þegar hann lék vel með boltann og skaut að marki og Þórður Þorsteinn varði boltann inn.

Staðan orðin 5:1 og það urðu lokatölur. FH er eftir sigurinn á toppi deildarinnar með 7 stig eftir þrjá leiki, með betri markatölu en KA, Valur og Víkingur Reykjavík sem eru með jafnmörg stig.

Í öllum þremur leikjum FH í Pepsi Max-deildinni á tímabilinu hefur andstæðingurinn misst mann af velli í fyrri hálfleik með rautt spjald. FH hefur því leikið fleiri mínútur í deildinni manni fleiri heldur en með jafnt í liðum.

FH 5:1 ÍA opna loka
106. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með öruggum 5:1 sigri heimamanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert